Veðurfræðingar ljúga – ekki lengur

cropped-landeyjar.jpg

 

Fyrir nokkrum árum hljómaði hið stórskemmtilega lag Veðurfræðingar ljúga með Bogomil font og Flís reglulega í útvarpinu. Þar er farið ómjúkum höndum um getu veðurfræðinga til að spá fyrir um veður. Þó lagið sé fyndið er það ekki alls kostar sanngjarnt því að veðurfræðingar eru orðnir býsna góðir spámenn. Flestir sem komnir eru eitthvað til ára sinna muna þegar veðurspár voru miklu ónákvæmari en í dag. Nú eru veðurspár mjög nákvæmar fáeina daga fram í tímann, segja heilmikið fyrir næstu vikuna og lengstu spár eru jafnvel pínulítið betri en almenn veðurfarsþekking (lýsingar á meðalveðri á tilteknu svæði á tilteknum árstíma). Þetta er hreint ekki svo slæmt enda skipuleggja margir líf sitt í kringum veðurspár sem þeir myndu ekki gera ef veðurfræðingar væru sífellt að ljúga.

En af hverju hefur veðurspám fleygt fram? Nærtækra skýringa má væntanlega leita í almennum framförum í faginu, öflugri tölvum og fleiru en meginástæðan er önnur. Hún er sú að menn áttuðu sig snemma á  gildi þess að spá fyrir um veður og fjárfestu í nauðsynlegum innviðum til að gera veðurspár og bæta. Hér má nefna sterkar stofnanir, mannaðar veðurstöðvar (og sjálfvirkar seinna), veðurskip, radarstöðvar, gervihnetti og fleira. Með öllu þessu má betur skilja tengsl veðurfyrirbæra og spá fyrir um hvaða aðstæður leiða af sér tiltekið veður. Spár um framtíðina byggja jú alltaf á að skilja tengsl fyrirbæra í fortíðinni. Og fjárfestingin hefur skilað sér. Við fáum fínar veðurspár sem gagnast á mörgum sviðum mannlífsins. Til dæmis í tengslum við ferðalög, samkomur, ýmsar framkvæmdir, leik og störf. Almennt má segja að fjárfesting í vísindum og rannsóknum tengist náið nærtækri skynjun manna á notagildi. Og nú kemur að vistfræðinni.

Vistfræði fæst í stórum dráttum við tengsl lífvera og umhverfis. Viðfangsefnin eru margvísleg, frá mælikvarða einstakra lífvera upp í hnattræna ferla sem verka í lífhvolfinu* öllu. Það er óhætt að segja að vistfræði glími við flest stóru vandamál mannkyns eins og áhrif loftslagsbreytinga, þurrka, jarðvegseyðingu, tap á líffræðilegri fjölbreytni, mengun, vatnsgæði og margt fleira. Fjölbreyttar grunnrannsóknir í vist- og þróunarfræði eru að auki nauðsynlegar til að byggja upp þekkingu á þeim ferlum sem þarf til að skilja gang vistkerfa. Vistfræðin kemur þvert á ýmis fög eins og jarðfræði, veðurfræði og félagsfræði enda eru flest stóru vandamálin þverfagleg í eðli sínu. Vistkerfi eru flókin og líklega flóknustu kerfi sem menn fást við að reyna að skilja**. Þetta væri kannski ekki sérstakt vandamál fyrir fólk ef mannkynið væri ekki algerlega háð vistkerfum. Loftið sem við öndum að okkur, fæðan sem við innbyrðum og hráefni í það sem við búum til er allt háð því að náttúrulegir ferlar á landi, í lofti, vatni og jarðvegi séu í þokkalegu lagi. Neysla jarðarbúa er nú þegar meiri en jörðin stendur undir og það er mjög ólíklegt að við finnum jafnvægi milli verndunar og nýtingar nema með betri skilningi á vistkerfum og tengslum þeirra við athafnir manna. Og þá komum við að fjárfestingunni. Af einhverjum ástæðum, og það er ekki séríslenskt vandamál þó það sé áberandi hér,  hefur þjóðum í stórum dráttum mistekist að byggja upp vistfræðirannsóknir að því marki að þær hafi gott forspárgildi. Eins og til dæmis rannsóknir í veðurfræði hafa. Þetta er staðreynd þrátt fyrir að þekking í vistfræði hafi óumdeilt gildi fyrir framtíð mannkyns. Það mætti ræða líklegar ástæður fyrir þessu getuleysi en það bíður betri tíma. Mig langar hér aðeins að kasta fram örfáum grundvallarspurningum sem við gætum líklega haft svör við ef innviðir rannsóknastarfs myndu endurspegla raunverulegt gildi slíkra rannsókna. Nú er ég ekki að halda því fram að það sé ekkert vitað um þessi mál því sumt er þekkt að einhverju marki. Þessar spurningar eru valdar þannig að hver sem er ætti að sjá að nærtækt gildi, a.m.k. sumra þeirra.

-Hvaða áhrif hefur framburður úr jökulám á nytjastofna fiska á grunnsævi?

-Hvaða áhrif hefur fiskeldi á laxfiska í ám og vötnum?

-Hvaða áhrif hafa gróðurbreytingar af mannavöldum (t.d. beit og þangskurður)  á aðrar nytjar og líffræðilega fjölbreytni?

-Hvaða áhrif hefur landbúnaður á vatnsgæði á viðkomandi svæðum?

-Hvaða áhrif hafa vatnsgæði landbúnaðarsvæða á líffræðilega fjölbreytni?

-Hver eru tengsl líffræðilegrar fjölbreytni og grunnvatns (magns og gæða)?

-Hvaða áhrif hefur landbúnaður á myndun og viðhald jarðvegs?

-Hver er dreifing líffræðilegrar fjölbreytni (t.d. áberandi tegunda hryggdýra og plantna) yfir landið og hvernig skarast sú dreifing við yfirstandandi eða líklegar nytjar á náttúrunni?

-Hvaða áhrif hefur landbútun, þegar landi er skipt niður í smærri og smærri einingar (e. habitat fragmentation ) t.d. með vegagerð og sumarhúsum,  á líffræðilega fjölbreytni?

-Hvaða áhrif hefur mengun frá iðnaði á skilyrði fyrir landbúnað?

Þessar spurningar gefa ekki tæmandi yfirlit af neinu tagi, þetta eru bara þær tíu fyrstu sem flutu upp á yfirborð vitundarinnar. Það er hægt að spyrja margra annarra og þessar má bæta og prjóna við. En þær gefa ágæta mynd af tengslum vistfræði við líf fólks og eru að sama skapi átakanlega mannhverfar. Ef við hefðum skýr svör við þessum spurningum gætu þau forðað okkur frá afdrifaríkum mistökum, sparað mikla fjármuni við stefnumótun og skipulagsmál og varðveitt lífsgæði á Íslandi. Þegar við höfum svör við þessum spurningum má spyrja enn nærtækari spurninga um hagsmuni. Til dæmis um fjárhagslegan kostnað og ávinning  við nýtingu eða vernd. Auðvitað þarf ýmsar grunn- og stuðningsrannsóknir til að svara svona spurningum og þær tengjast vissulega almennum viðfangsefnum í vistfræði. Hér má benda á nýlega samantekt fjölda vísindamanna sem greindu 100 mikilvægar spurningar í vistfræði. Það má telja sérstakt áhyggjuefni að þær stofnanir sem fást við þessar rannsóknir á grundvallarlífsskilyrðum skuli ekki vera betur fjármagnaðar. Háskólarnir eru fjársveltir og rannsóknastofnanir sem hafa lögbundið hlutverk við skráningu náttúrunnar þurfa að stórum hluta að fjármagna sig með útseldri vinnu vegna verklegra framkvæmda. Það má gera því í skóna að meiri hluta þess fjármagns sem hið opinbera hefur varið til náttúrurannsókna á Íslandi hafi verið ráðstafað af framkvæmdastofnunum eins og orkufyrirtækjum en ekki af vísindastofnunum í náttúrufræði. Líklegar afleiðingar eru þær að hér skortir víðtækar rannsóknir sem nýtast þjóðinni á breiðum grunni en miklum fjármunum hefur verið varið í rannsóknir á afmörkuðum framkvæmdum sem voru jafnvel aldrei efnilegar.

 

*Lífhvolf (e. biosphere) er hinn lífræni hluti jarðarinnar og í nánum tengslum við ferla og hringrásir í lofti, vatni og í jörðu.

**Vistfræðirannsóknirnar sjálfar eru sjaldan eins flóknar og viðfangsefnið gefur tilefni til enda eru þeim settar þröngar skorður hvað varðar aðferðir og umfang. Einhver lýsti nálgunum vistfræðinga líkt og spilað væri á píanó með hamri. En vistkerfin sjálf eru afar flókin, þau hafa afar marga hluta sem tengjast á mjög marga vegu og vistkerfi breyta sér sjálf í sífellu með náttúrulegu vali. Eitt stingandi strá er örugglega margbrotnara kerfi en flóknustu mannvirki og vistkerfi í fábrotnum móa er stærðargráðum fjölbreyttara en hagkerfi heimsins (þ.e. ef við gerum ráð fyrir að hagkerfi séu ótengd náttúrunni eins og algengast er). Hér má vitna í Carpender (2009) og heimildir þar:  „Ecology is not rocket science – it is far more difficult . The most intellectually exciting ecological questions, and the ones most important to sustaining humans on the planet, address the dynamics of large, spatially heterogeneous systems over long periods of time. Moreover, the relevant systems are self-organizing, so simple notions of cause and effect do not apply. Learning about such systems is among the hardest problems in science, and perhaps the most important problem for sustaining civilization.

 

Heimildir:

Carpender, S.R. 2009. Bls. vii-ix í:  Real World Ecology. Large-Scale and Long-Term Case Studies and Methods. Ritsjórar Miao, S.L., Carstenn, S. & Nungesser, S. Springer Science, NY.

Sutherland, W.J. o.fl. 2013. Identification of 100 fundamental ecological questions. Journal of Ecology 101: 58–67.

 

 

 

Er best að vera grágæs fyrir sunnan?

Eitt af því sem getur haft mikil áhrif á viðgang dýrastofna er lega búsvæða þeirra. Ýmis vistfræðileg mynstur svo sem líkamsbygging dýra, þéttleiki stofna og fjölbreytni dýralífs sýna oft tengsl við breiddargráðu og hæð yfir sjó en þessir þættir eru nátengdir loftslagi. Almennt verður lífsbaráttan harðari því fjær sem dregur frá miðbaug eða hærra í landi þó á því séu ýmsar undantekningar. Erfiðari skilyrði geta birst í minni viðkomu og/eða lægri lífslíkum.

Ísland er fremur norðarlega á hnettinum, milli 63. og 67. gráðu. Munur á legu milli Suðurlands og Norðurlands getur skipt máli þegar kemur að ytri skilyrðum fyrir dýr. En aðrir þættir, eins og landslag og hafstraumar hafa ekki síður áhrif á loftslag á Íslandi sem er fremur milt miðað við hnattstöðu. Þannig er að jafnaði mildast á láglendi um sunnan- og vestanvert landið en kaldara fyrir norðan og austan. Vel er þekkt að þessi hóflegi breytileiki í loftslagi kemur víða fram í náttúrunni. Spretta grasa og heyfengur eru til dæmis nátengd hitafari og eins eru ýmsar pöddur fljótari til þar sem hlýrra er á vorin. Þá eru vísbendingar um að hlýnandi loftslag sé farið að hafa áhrif á stofna fiska og fugla. Lítið hefur þó verið um rannsóknir sem leitast beinlínis við að skýra landshlutabundinn mun í áhrifum loftslags á dýrastofna.

Grágæs er útbreiddur varpfugl á láglendi um allt land. Hún er jafnframt einhver vinsælasta veiðibráð Íslendinga. Veiðiálag á stofninn virðist mjög mikið og líklega er um fjórðungur til þriðjungur stofnsins skotinn árlega. Þrátt fyrir þetta virðist stofninn bæta sér upp þessi miklu afföll og hefur verið stöðugur síðustu ár. Oft er erfitt að vita hversu mikil afföll stofnar þola nema láta reyna á það með veiðum. Undantekningalítið er það sú leið sem er farin enda byggja veiðar víðast á gömlum venjum. Í nútímanum ætti þó að kappkosta að afla grunnupplýsinga um lýðfræði* og búsvæðanotkun stofna til að hafa einhver stjórntæki til að stuðla að sjálfbærum veiðum. Misjafnt er hvaða lágmarksþekking er nauðsynleg en auk breytinga á stofnstærð  má gera ráð fyrir að upplýsingar um dánartíðni og framleiðslu séu æskilegar. Þrátt fyrir miklar veiðar og þá ábyrgð sem af þeim hlýst er vistfræði íslenska grágæsastofnsins fremur illa þekkt. Þær rannsóknir sem hafa verið stundaðar á stofninum eru einkum frá vetrarstöðvum á Bretlandseyjum. Þar eru t.d. flestar íslenskar grágæsir taldar á veturna sem grunnurinn að árlegu mati á stofnstærð.

SONY DSC

1. mynd. Helgi Guðjónsson við mælingar á gæsahreiðrum í Ytri Rangá í Rangárvallasýslu.

Helgi Guðjónsson líffræðingur og félagar birtu fyrir stuttu grein um varpvistfræði grágæsa í alþjóðlegu fagtímariti en greinin byggði á meistaraverkefni sem Helgi lauk vorið 2014. Verkefnið miðaði að því að meta landshlutamun á skilyrðum fyrir grágæsavarp. Þó grágæsir séu áberandi fuglar kostar heilmikla fyrirhöfn að rannsaka þær í varpi. Þær verpa þéttast á óaðgengilegum stöðum, í eyjum og hólmum í stórám og í sjó. Stór hluti stofnsins virðist þó verpa dreift  og erfitt er að finna þau hreiður nema með mikilli fyrirhöfn. Gagnaöflun kostar því talsverðar göngur, volk í vöðlum, bátsferðir og sundferðir eftir atvikum. Helgi er vöðluvanur og lét þetta ekki stöðva sig og naut einnig samvinnu góðra félaga við bátsferðir og gagnaöflun.

Grágæsavörp víða um land voru heimsótt sumrin 2012 og 2013. Egg voru talin og mæld og varptími metinn. Stærð og fjöldi eggja gefa vísbendingu um ástand fugla og skilyrði til varps en gæsir verpa að jafnaði fleiri og stærri eggjum ef þær eru í góðu ástandi. Varptími var metinn með því að skoða hvernig egg fljóta í vatni. Egg léttast vegna útgufunar þegar líður á útungun og með því að meta flot þeirra í vatni má reikna til baka hvenær þeim var orpið. Gæsir verpa fyrr að vorinu ef veðurfar er hagstætt, líkt og fleiri fuglar, og því gefur varptími vísbendingu um skilyrði. Þá voru gæsir og ungar þeirra talin á sömu slóðum síðsumars. Ekki var endilega búist við að mikill munur væri á þessum þáttum milli landshluta enda grágæsir stórir og harðgerir fuglar. Annað kom þó á daginn.

Grg-urpt-start

2. mynd. Munur á eggjafjölda í hreiðrum (a) og á upphafi álegu (dagar frá áramótum á y-ás) (b) milli landshluta árin 2012 og 2013.

Landshlutamunur var einna mestur á varptíma. Grágæsir hófu að jafnaði varp um 30. apríl á Suðurlandi og Vesturlandi, um 10. maí á Norðurlandi og um 20. maí á Austurlandi. Þessi þriggja vikna munur er verulegur og gæti skipt  máli varðandi þroska unga að hausti og lífslíkur. Vert væri að kanna það frekar. Nokkur munur var einnig á fjölda eggja í hreiðrum. Meðalfjöldi eggja í hreiðrum á Suðurlandi og Vesturlandi slagaði í fimm, var um fjögur egg á Austurlandi en Norðurland var mitt á milli.

Grg-urpt

3. mynd. Tengsl milli meðalhita í apríl og fjölda eggja í grágæsahreiðrum á Íslandi og í nokkrum öðrum löndum.

Þessi munur á eggjafjölda er nátengdur hitastigi og fellur munur milli landssvæða á Íslandi vel inn í rannsóknir á eggjafjölda grágæsa annars staðar (3. mynd). Meðalstærð systkinahópa þegar leið á sumarið var á bilinu þrír til fimm, minnst á Austurlandi  en mest á Norðurlandi. Af mældum þáttum var áramunur einna mestur á fjölda unga.

Þessar niðurstöður sýna glögglega að það er talsverður landshlutamunur á skilyrðum fyrir grágæsavarp. Að jafnaði verpa grágæsir á hlýrri láglendissvæðum fyrr, fleiri eggjum og þar sem kaldast var á Austurlandi voru gæsir  einnig að jafnaði með fæsta unga. Aftur á móti er grágæsavarp útbreiddara á Austurlandi og Norðausturlandi sem endurspeglar líklega meira framboð af hentugum búsvæðum á þeim svæðum. Það virðist því hagstæðast að vera grágæs á hlýrri láglendissvæðum landsins en það er aftur meira af þeim á kaldari svæðum. Mjög líklegt er að góður varpárangur eigi stóran þátt í að halda uppi svo miklum grágæsaveiðum sem reyndin er. Til að stuðla að áframhaldandi viðgangi stofnsins og nýtingu ef vill, er nærtækast að vernda varpbúsvæði. Það gerist helst með því að vernda votlendi af ýmsu tagi og takmarka framkvæmdir nálægt vatni þar sem grágæsir verpa. Sveitarfélög fara með skipulagsvald og bera mikla ábyrgð á náttúruvernd.

Þó Ísland sé ekki stórt og loftslag hér sé fremur milt, kemur landshlutamunur á skilyrðum greinilega fram í afkomu grágæsa á láglendi. Gæsir eru með okkar stærstu og seigustu landdýrum og þessi breytileiki sem kemur fram í varpi þeirra gefur til kynna að hliðstæðan landshlutamun sé víða að finna hjá íslenskum dýrum sem við vitum enn minna um.

 

Heimild:

Helgi Guðjónsson, Jón Einar Jónsson, Halldór Walter Stefánsson, Aðalsteinn Örn Snæþórsson og Tómas Grétar Gunnarsson 2015. Annual and large-scale variation in breeding output of Greylag geese (Anser anser) in Iceland. Bird Study, in press.

 

* Lýðfræði (e. demography) er tölfræði stofna og fæst m.a. við fæðinga- og dánartíðni, inn- og útflutning, dreifingu stofna, aldurssamsetningu o.fl.

 

 

 

 

 

 

 

Vernd og vöktun mófugla – Ráðstefna Fuglaverndar

Fuglaverndarfélag Íslands stóð fyrir ráðstefnu um vernd og vöktun mófugla 29. nóvember. Þar voru haldin þrenns konar erindi: um stöðu stofna og vöktun, um þær hættur sem stafa að búsvæðum mófugla og um þau ferli sem geta breytt landnotkun í fækkun í stofnum. Á Íslandi eru ofurstórir mófuglastofnar og mófuglar því afar áberandi á tegundafábreyttu landinu. Hvert mannsbarn þekkir angurvært bí lóunnar, hnegg hrossagauksins og vell spóans. Hljóð mófuglanna eru samofin þjóðarsálinni og hreyfa við vorinu sem við göngum flest með í maganum. Þessi tenging skýrir t.d. af hverju virðist vænlegt að nota mófuglahljóð mikið í auglýsingum.

Spói

Konungur fuglanna?

Vegna þess að hér eru afar stórir mófuglastofnar, bera Íslendingar sérstaka ábyrgð á viðgangi þeirra. Flestir mófuglar eru farfuglar sem virða ekki landamæri. Þeir verða því ekki verndaðir nema í samstarfi þjóða og Íslendingar eru aðilar að nokkrum samningum sem fela í sér ábyrgð á mófuglastofnum. Þrátt fyrir þessa ábyrgð hefur gengið afar illa að koma á nauðsynlegri vöktun á mófuglum. Stjórnvöld ættu að tryggja að stofnanir geti staðið undir lagalegri skyldu við vöktun náttúrunnar. Slík vöktun mælir ekki einungis ástand mófuglastofna heldur er líka mælikvarði á áhrif landnotkunar og landslagsbreytinga. Mófuglar eru nefnilega mjög víða og fjöldi þeirra og dreifing eru nátengd landnotkun. En þessi mikla dreifing skapar líka vandræði þegar kemur að vernd. Þegar fuglar eru hnappdreifðir (eins og t.d. endur á Mývatni eða sjófuglar í bjargi) er hægt að stofna afmörkuð verndarsvæði sem ná yfir stóran hluta stofna. En hvernig verndum við dreifðar lífverur? Það er hægt að stofna verndarsvæði á lykilstöðum, t.d. í votlendi hvað varðar mófugla. Það gerir mikið gagn og nauðsynlegt er að fjölga verndarsvæðum og efla verulega þau sem eru fyrir ef við ætlum að ná árangri. En til að vernda dreifða stofna, þarf einnig að taka tillit til þeirra við aðra landnotkun. Það er hægt að gera með ýmsu móti og varðar bæði stjórnsýslu skipulagsmála og þá sem nota landið.

Fundur Fuglaverndar sem nefndur var hér í upphafi samþykkti ályktun sem finna má á síðu Fuglaverndar. 

 

 

Náttúruvernd í úthaga

Í nýlegri úttekt Efnahags- og framfarastofnunar Evrópu (OECD) á umhverfismálum á Íslandi kemur fram að grunnrannsóknir og vöktun á íslenskri náttúru eru enn í hálfgerðum molum þrátt fyrir framfarir á síðustu árum. Eitt af brýnustu viðfangsefnum samtímans er að samræma nýtingu landsins og nauðsynlega náttúruvernd. Þá skiptir máli að hafa haldgóðar upplýsingar um eðli og dreifingu náttúruverðmæta.

Rýrt mólendi

Rýrt mólendi á Rangárvöllum. Spói flýgur yfir. Hekla í baksýn. Mynd: TGG.

Breytingar á landnotkun á Íslandi hafa verið hraðar á síðustu árum. Líklega erum við Evrópumeistarar í hraða landbreytinga á þessari öld og Sunnlendingar afkastamestir (Elke Wald 2012). Við þróun landnotkunar er mikilvægt að fyrir liggi upplýsingar um verðmæti mismunandi landgerða. Þá hafa þeir sem fara með skipulagsmál einhver tæki til að forgangsraða og skipuleggja nýtingu og vernd. Fuglalíf er einn mælikvarði á gildi lands. Fuglar eru ofarlega í fæðukeðjum og byggja tilvist sína á ýmsum þáttum neðar í keðjunni, s.s. frjósemi jarðvegs og smádýralífi. Þar sem er meira af fuglum er land að jafnaði frjósamara, hefur því meira gildi fyrir náttúruvernd og oft aðra nýtingu líka. En það er með fuglalíf eins og marga aðra þætti í náttúru landsins, grunnupplýsingar um fjölda, dreifingu og fjöldabreytingar eru af skornum skammti. Eflaust eru fjölbreyttar ástæður þar að baki en mannfæð og skilningsleysi á mikilvægi náttúruþekkingar koma væntanlega við sögu.

Það þarf hvorki að vera mannfrekt né seinlegt að afla þekkingar um náttúrufar. Til dæmis má gera mun meira af því að afla afmarkaðra upplýsinga á vettvangi og yfirfæra þær á stærri svæði með landfræðilegum gögnum. Með landfræðilegum gögnum er t.d. átt við gróðurkort, jarðvegskort og önnur kerfi sem sýna dreifingu yfirborðseiginleika á mælikvarða landslags. Þá fæst fljótlegri og ódýrari mynd af þeim þáttum sem eru til skoðunar heldur en með vettvangsmælingum einum.

Kort sem sýnir þéttleika mófugla í fimm búsvæðum á Suðurlandi (Árnes- og Rangárvallasýsla undir 200 m y.s.). Meðalfjöldi mófugla á km2 er í sviga á eftir hverju búsvæði. Lilja Jóhannesdóttir o.fl. 2014.

Fyrir stuttu birtist grein í bresku vísindariti sem byggði á viðamiklu meistaraverkefni Lilju Jóhannesdóttur. Verkið fólst í að meta mikilvægi mismunandi gerða úthaga fyrir fuglalíf og það var unnið við Landbúnaðarháskóla Íslands í samstarfi við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Suðurlandi. Lilja taldi mófugla víða á Suðurlandi 2012-2013. Talningarnar voru gerðar í fimm algengustu gerðum úthaga þar sem landupplýsingagrunnurinn Nytjaland sem rekinn er af Landbúnaðarháskóla Íslands var notaður til að flokka búsvæði. Búsvæðin voru rýrt mólendi, ríkt mólendi, graslendi, hálfdeigja og votlendi. Líklegt er að aukin umsvif manna á láglendi, t.d. landbúnaður, íbúðarhús, skógrækt og frístundabyggð lendi mikið á þessum víðáttumiklu grónu landgerðum og því var eðlilegt að afmarka verkefnið við þau. Talningarstaðir voru 200, eða 40 í hverju búsvæði. Með því að nota Nytjalandsgrunninn voru niðurstöður af þessum 200 blettum yfirfærðar á Suðurland allt.

Verkefnið leiddi í ljós að í öllum búsvæðunum fimm er ofurþéttleiki mófugla miðað við það sem gengur og gerist í öðrum löndum. Hæstur var þéttleikinn í votlendi og hálfdeigju eða 620-640 mófuglar á ferkílómetra að meðaltali. Næst komu ríkt mólendi og graslendi með um 460-480 mófugla á km². Rýrt mólendi rak lestina, en þó með um 275 mófugla á km² sem í flestum löndum myndi þykja ástæða til sérstakra verndaraðgerða. Yfir 95% af öllum töldum fuglum tilheyrðu aðeins átta tegundum. Þetta voru vaðfuglarnir tjaldur, heiðlóa, spói, jaðrakan, stelkur, hrossagaukur og lóuþræll ásamt þúfutittlingi sem er spörfugl. Þúfutittlingur var raunar algengari en hinar tegundirnar til samans. Í alþjóðlegum samanburði er fjölbreytni tegunda lítil en margir einstaklingar eru af hverri tegund.

Stofnar mófugla í búsvæðunum fimm á Suðurlandi voru stórir. Fjöldi þúfutittlinga var t.d. um 700 þúsund og spóar voru um 118 þúsund. Hlutfall Evrópustofna tegundanna í þessum afmörkuðu búsvæðum á Suðurlandi var á bilinu 2-20% sem er mjög mikið miðað við að Ísland allt er aðeins um 1% af flatarmáli Evrópu. Megnið af heimsstofnum þessara tegunda verpur í Evrópu. Vaðfuglum (sem eru uppistaðan í þeim hópi sem nefndur er mófuglar í daglegu tali) fer fækkandi hnattrænt sem eykur enn á mikilvægi Íslands. Niðurstöðurnar undirstrika gildi votlendis fyrir fugla en sýna einnig að aðrar gerðir úthaga eru góðar fyrir mófugla. Nokkur munur var á samsetningu tegunda eftir landgerðum og t.d. má nefna að heiðlóa var algengust í rýru mólendi sem var það búsvæði þar sem heildarþéttleiki fugla var minnstur.

Votlendi

Votlendi eins og það gerist mest og best á Íslandi. Safamýri í Rangárvallasýslu. Mynd: TGG

 

Niðurstöður sýna vel að gróinn íslenskur úthagi er fyrirheitna land mófugla. Þéttleiki mófugla er hár á heimsmælikvarða í öllum þeim búsvæðum sem skoðuð voru. Raunar virðist erfitt að herja mikið á íslenska úthagann án þess að það komi niður á heimsstofnum okkar algengari mófuglategunda. Blautari landgerðirnar, votlendi og hálfdeigja, voru þó með flesta fugla og þeir sem vilja lágmarka áhrif landnotkunar sinnar á mófugla ættu að huga sérstaklega að þessum búsvæðum.

Heimildir

Lilja Jóhannesdóttir, Ólafur Arnalds, Sigmundur Brink og Tómas Grétar Gunnarsson 2014. Identifying important bird habitats in a sub-arctic area undergoing rapid land-use change. Bird Study 61. http://dx.doi.org/10.1080/00063657.2014.962481

Elke Wald 2012. Land-use Development in South Iceland 1900-2010. Meistaritgerð við Háskóla Íslands. Slóð: http://hdl.handle.net/1946/10804