Tjón af völdum álfta: eru skotveiðar lausn?

(Bendi á samantekt neðarlega fyrir þá sem nenna ekki að lesa)

Umræða um tjón á ræktuðu landi, af völdum álfta, hefur verið áberandi síðustu ár. Þó almennilegar mælingar á umfangi tjónsins skorti virðist skaðinn umtalsverður hjá mörgum bændum.

Hér verður ekki fjallað almennt um tjón af völdum álfta heldur einkum um álftaveiðar. Skotveiðar á álftum er lausn sem oft er nefnd og varla er svo haldið búnaðarþing að ekki sé ályktað um málið. En eru skotveiðar líklegar til að leysa vandann? Fyrst nokkur orð um líffræði álfta.

Álftastofninn

Flestar íslenskar álftir halda til á Bretlandseyjum á veturna, margar á verndarsvæðum sem laða til sín fjölda gesta á hverjum vetri. Íslenski álftastofninn hefur verið talinn reglulega á veturna, á fimm ára fresti síðustu 30 ár. Álftir er auðvelt að telja og stofnmatið er líklega nokkuð nákvæmt, með þeim fyrirvara að álftir af öðrum uppruna en íslenskum blandist lítið við íslenskar á vetrum (sem myndi þá lækka stofnmatið).  Stofninn var um 29 þúsund fuglar í talningu 2010 og hafði þá stækkað um rúm 2% á ári frá talningunni 2005 (1.mynd). Miðað við sömu fjölgun ætti stofninn að vera um 32 þúsund fuglar um þessar mundir. En það mun skýrast á næstunni því stofninn var talinn í janúar 2015. Álftir á fyrsta vetri eru auðgreindar og hefur hlutfall þeirra að jafnaði verið nokkuð stöðugt eða um 14% að meðaltali síðustu 10 ár (1. mynd). Álftapör sem eru með unga á veturna hafa að jafnaði haft um 2-2,5 unga á par á sama tímabili  (1. mynd).  Íslenskar álftir hafa verið friðaðar árið um kring frá 1914.

Græðgi álfta er margrómuð og útbreidd flökkusaga segir frá álftum sem éta á við kind með tvö lömb. Slík afköst eru fjarri veruleika en fuglar éta að jafnaði minna en spendýr af sömu þyngd á jafn löngum tíma. Þar skiptir mestu að fuglar taka minni bita en spendýr en geta aftur á móti bætt sér upp óskilvirkara fæðunám með því að éta lengur. Álft vegur að jafnaði um 10 kg.

alftastofn-2

1. mynd. Breytingar á stofnstærð og framleiðslu álftastofnsins. Efst má sjá heildarstofnstærð. Í miðjunni er ungahlutfall (% ungfugla af heild) og neðst er stærð systkinahópa hjá þeim pörum sem eru með unga. Gögn frá Wildfowl og Wetlands Trust (wwt.org.uk).

 

Í upphafi skyldi endinn skoða

Þegar lagt er út í vegferð eins og þá að minnka tjón með veiðum er gott að reyna að sjá fyrir hvernig veiðarnar eiga að ná takmarkinu. Í fljótu bragði virðast þrjár leiðir mögulegar: A) að skotveiðar fæli álftir af ræktuðu landi, B) að skotveiðar velji einstaklinga sem sækja í ræktað land úr stofninum og C) að álftum verið fækkað það mikið að tjón verði hverfandi. Hér verður stiklað stuttlega á þessum möguleikum.

A) Skotveiðar sem fæling. Það þarf nokkurt átak til að fæla álftir af ræktuðu landi og þær koma fljótt aftur. Gasbyssur og aðrar fælingaraðferðir duga stutt einar sér. Þetta er líka reynslan víða um heim þar sem fólk reynir að halda andfuglum af ræktuðu landi. Það þarf að beita fjölbreyttum aðferðum því fuglarnir eru fljótir að venjast. Að nota skotvopn til að fæla álftir er því ólíklegt til árangurs.

B) Ásókn í ræktað land valin úr stofninum. Þeir sem stunda kynbætur á dýrum þekkja vel að hægt er að velja fyrir skapferli líkt og fyrir byggingu. Ef takmarkaðar veiðar yrðu leyfðar á álftum er líklegt að þær spöku yrðu skotnar fyrst og þær styggu síðast. Því mætti vonast til að sækni í ræktað land myndi ræktast úr stofninum á viðunandi stuttum tíma. Það skiptir miklu máli hversu mikill breytileiki er í atferli innan stofnsins. Ef flestar álftir eru tiltölulega spakar (á mælikvarða haglabyssufæris*) þá verður búið að skjóta þær flestar áður en áhrif á atferli koma fram. Munurinn á gæðum fæðu á ræktuð landi og í úthaga skiptir líka miklu máli. Ef munurinn er mikill, þá getur það verið áhættunnar virði fyrir álftir að leggjast í næringarríka fæðu á ræktuðu landi þó því fylgi heldur meiri lífshætta. Þriðja atriðið sem skiptir máli er kynslóðabil álfta en þær verða ekki kynþroska fyrr en fjögurra ára eða svo. Það tekur án efa þó nokkrar kynslóðir fyrir valáhrif af þessu tagi að koma fram, sér í lagi ef valið er veikt. Einnig er gagnlegt að skoða veiðar á grágæs til samanburðar en gæsir og álftir hafa mjög líka lifnaðarhætti. Árlega eru skotnar hér um 40 þúsund grágæsir sem líklega er um fjórðungur af stofninum. Samt halda þær áfram að koma í ræktað land. Þessi hliðstæða gefur enga ástæðu til bjartsýni varðandi árangur álftaveiða við að draga úr tjóni.

álftahreiður á túni

2. mynd. Álftahreiður í túnjaðri á Rangárvöllum. Álftirnar þurfa að fara meira en einn km til að koma ungunum á vatn. Yfir veg, í gegnum tvö skjólbelti og sumarhúsahverfi. Líkur á að missa unga við þessar aðstæður eru mun meiri en þar sem álftir verpa við opið vatn.

C) Fækkun til að minnka tjón. Það er örugglega hægt að skjóta það mikið af álftum að tjón verði hverfandi. Álftir eru stórar, silalegar og auðveld skotmörk. Það væri hægt að stráfella þær í fyrirsát og tína þær niður með riffli nánast hvar sem er. Líklega er þetta eina leiðin til að ná betri árangri en þeim að fæla álftir milli góðra granna. En hvað myndi þurfa að veiða margar álftir til að tjón yrði hverfandi víðast hvar? Það yrði líklega að veiða mjög margar. Hér er aftur gagnlegt að skoða hliðstæðu í grágæsum. Eins og áður segir skjóta íslenskir veiðimenn um 40 þúsund grágæsir árlega (upp  í 58 þúsund) úr stofni sem aðeins telur í bestu árum um 110 þúsund fugla að loknum veiðum. Að auki veiða Bretar líklega allt að 20 þúsund. Því virðist vera að fjórðungur til þriðjungur stofnsins sé skotinn árlega án þess að stofninn minnki**. Ef við yfirfærum þetta á álftir, og gerum ráð fyrir að stofnmat þeirra sé nokkuð rétt, þá gætum við skotið þúsundir árlega án þess að þeim myndi fækka***. Ástæðan fyrir því að oft er hægt að veiða úr dýrastofnum án þess að þeir minnki er að einstaklingar eru í samkeppni um auðlindir eins og fæðu og rými. Þegar stofn, þar sem slíkrar samkeppni gætir, er grisjaður batna lífsskilyrði þeirra einstaklinga sem eftir eru og þeir bæta upp fækkunina í stofninum að einhverju eða öllu leiti. Þessi áhrif eru stundum kölluð þéttleikaháð áhrif (t.d. rædd í fyrirlestri hér) og eru mjög algeng í stofnum sem eru það stórir að þeir eru komnir upp að þeim mörkum sem auðlindir og atferli setja þeim. En gætir þéttleikaháðra áhrifa hjá álftum? Stutta svarið er að það er óvíst. Samanburður við grágæsir gæti þó bent til þess en einnig vísbendingar sem álftastofninn gefur sjálfur. Álftir verja óðul af hörku og verpa helst í gróskumiklu votlendi, sem fjærst mannabústöðum þar sem er opið vatn og gnótt fæðu. Slíkir staðir eru af skornum skammti og álftavarp er þar víðast nokkuð þétt. Þegar stofn stækkar, eykst samkeppni um góð hreiðurstæði og fleiri álftir að verpa á lakari stöðum þar sem varpárangur er verri. Síðustu ár virðist bera meira á álftavarpi á óheppilegum stöðum (2. mynd) en þessar breytingar hafa þó ekki verið skrásettar formlega svo höfundur viti. Meðalstærð ungahópa á vetrarstöðvum virðast hafa minnkað lítið eitt síðustu ár (1. mynd) og með góðum vilja mætti halda að stofnvöxtur hafi verið hægari milli síðustu tveggja talninga en þar áður (1. mynd). Hvort tveggja gæti bent til þéttleikaháðra áhrifa. Enn er of snemmt að fullyrða um þetta en fróðlegt verður að sjá hvað kemur út úr talningunni sem lauk nú í janúar.

Samantekt. Það er erfitt að minnka tjón með því að fæla álftir og það er ólíklegt að hægt sé venja þær af því að sækja í ræktað land. Eina raunhæfa leiðin, ef beita á skotveiðum, virðist vera að drepa álftir þangað til þær eru orðnar það fáar að tjón verður hverfandi. Ef stærð álftastofnsins er rétt metin og draga má lærdóm af grágæsaveiðum, er líklegt að skotveiðar á þúsundum álfta muni litlu skila. Hér má einnig benda á rannsóknir í Kanada sem sýndu að tjón á korni tengdist tíðarfari og sláttutíma mun meira en stofnstærðum þeirra andfugla sem sóttu í kornið. Þetta er áhugaverður samanburður í ljósi aðstæðna á Íslandi þó þetta mynstur sé ekki algilt. Alls er óvíst hversu mikið þarf að veiða til að fækka álftum þannig að það komi að gagni við að draga úr tjóni hjá flestum bændum. Stjórnvöld sem feta þennan veg munu væntanlega þurfa að leggja blessun sína yfir árlega veiði á þúsundum álfta. Þau myndu einnig þurfa að fjármagna kerfi til að tryggja að veiðarnar fari ekki úr böndunum****. Slíkt kerfi gæti verið dýrara en sem nemur því tjóni sem álftir valda.

Í stuttu máli virðist ekkert benda til að veiðar séu skynsamleg leið til að minnka tjón af völdum álfta. Auðvitað kemur náttúran stundum á óvart en miðað við þær upplýsingar sem liggja fyrir virðast heilmiklar líkur á að tilraunir með álftaveiðar til að minnka tjón gætu orðið gagnslaust klúður. Lagalega er málið nokkuð orkufrekt því álftaveiðar krefjast breytinga á íslenskum lögum og samræmast ekki alþjóðasamningum. Almenningsálitið hefur ekki verið nefnt en það skiptir líka máli.

Í nágrannalöndum þar sem svanir og gæsir valda tjóni er beitt fjölbreyttum aðferðum með eða án aðkomu stjórnvalda. Þær fela oftast í sér ýmsar aðgerðir til að fæla og ræktun á sérstökum spildum þar sem fuglar fá að vera í friði. Mikilvægt er að grípa til aðgerða áður en fuglarnir venjast við. Það eru engar einfaldar lausnir til að verjast tjóni af völdum villtra dýra heldur útheimtir árangur vinnu hvort sem skotveiðar eru hluti aðgerða eða ekki. Umgjörð málefna sem varða samspil atvinnugreina og villtrar náttúru hefur lengi verið brotakennd hérlendis. Mikilvægt er að stjórnvöld taki á málum með faglegum hætti og veiti að minnsta kosti ráðgjöf. Benda má á nýlega skýrslu sem fjallar á víðtækan hátt um málefni villtra dýra og finna má á vef umhverfisráðuneytisins (http://www.umhverfisraduneyti.is/frettir/nr/2400). Þar er m.a. fjallað um tjón af völdum villtra dýra. Sjá t.d. kafla 8.3 á bls. 236. Þar er lagt til að veiðar til að verjast tjóni ættu að vera þrautaráð þegar aðrar leiðir koma varla til greina og að kostnaður við að koma í veg fyrir tjón ætti ekki að vera meiri en sá kostnaður sem af tjóninu hlýst.

 

Álftapar á tjörn

3. mynd. Álftapar á tjörn.

 

*Hér er hugsunin að setið sé fyrir þeim á ræktuðu landi líkt og á gæsaveiðum til að venja þær af ræktaða landinu. En ekki að þær séu tíndar niður hvar sem til þeirra næst. Skotmennska með stórum rifflum er líka varasöm á flötu landi eins og víðast þar sem ágangur álfta er mestur.

**Bretar halda ekki veiðiskýrslur eins og við og því er veiði þeirra ekki eins vel þekkt. Eins þarf að hafa í huga að þetta ástand gæti breyst. Þó grágæsastofninn hafi þolað 40-58 þúsund fugla veiði síðasta áratug, gætu þær allt eins þolað minna – eða meira álag á næsta áratug. En það er í öllu falli mjög áhugavert hvað grágæsastofninn stendur undir miklum veiðum þessi árin.

***Er þá ekki allt í lagi að veiða álftir ef það er hægt að skjóta þúsundir fugla án þess að stofninn minnki? Það er mjög líklegt að álftastofninn þoli nokkrar veiðar. En hvort sem veiðar eru til að verjast tjóni eða í öðrum tilgangi skiptir máli að álftir eru mjög auðskotnar og því væri ekki verjandi að leyfa veiðar án takmarkana af einhverju tagi. Líklega yrði að vera kvótakerfi fremur en dagakerfi þar sem dagakerfi virka illa á tegundir sem eru jafn auðfundnar og auðveiddar og álftir.

****Ef stofnar verða of litlir geta þeir lent í þrengingum sem er erfitt að snúa við. Erfðafjölbreytni minnkar, þeir verða viðkvæmari fyrir ýmsum áföllum, einstaklingar finna síður maka o.fl. Slík áhrif geta, til samans, komið stofnum í verulega kreppu fari þeir niður fyrir skynsamleg mörk. Þessi mörk getur verið mjög erfitt að finna.