Litmerkingar á fuglum

Þeir sem eru áhugasamir um fugla rekast öðru hverju á fugla með litskrúðug merki. Oft eru þetta samsetningar mismunandi lita (1. mynd) eða merki með áletrun (2. mynd). Tilgangur slíkra merkinga er að auðkenna einstaklinginn á nógu áberandi hátt til að þekkja megi hann á  færi. Hefðbundnar fuglamerkingar notast við málmmerki (oftast stál á fuglum sem lifa á og við sjó og ál á þurrlendisfuglum) með hlaupandi númeri og heimilisfangi og litmerktir fuglar bera líka málmmerki. Erfitt er að lesa á málmmerkin nema ná fuglinum aftur sem felur í sér verulegt óhagræði, bæði fyrir fuglinn og rannsakandann.

1. mynd. Litmerktur tjaldur. Gulur yfir hvítum á vinstri og grænt flagg yfir svörtum á hægri. Hann ber einnig stálmerki ofan liðamóta á vinstri.

Í hverju landi er ábyrgðaraðili sem hefur réttindi til að standa fyrir fuglamerkingum og úthlutar málmmerkjum. Á Íslandi er það Náttúrufræðistofnun Íslands (NÍ) sem má ein láta merkja fugla samvæmt lögum nr. 60 frá 1992 og þeir sem merkja fugla þurfa leyfi NÍ. Nánari upplýsingar um þetta hlutverk NÍ má finna hér. Þá færist í vöxt að fuglar séu merktir með rafeindabúnaði en hann er yfirleitt það dýr að bara er hægt að fylgjast með fáum einstaklingum eða hefur takmarkaða nákvæmni sem nýtist helst til að fylgjast með ferðalögum yfir mjög stór svæði eins og lesa má um í þessum pistli um Flug spóans.

2. mynd. Litmerkt álft. Hún ber málmmerki á vinstri fæti og litmerki með áletrunninni YFR á hægri fæti. Hún var merkt á Bretlandseyjum. Auðveldara er að koma merkjum með sýnilegri áletrun fyrir á stærri fuglum en á litlum fuglum eru oftar litmerki án áletrunar.

Málmmerki eða litmerki? 

Í raun er enginn eðlismunur á tilgangi merkinga með málmmerkjum og litmerkingum. Í báðum tilfellum er markmiðið að aukenna einstakling svo að hægt sé að afla upplýsinga um hann. Munurinn felst fyrst og fremst í því að litmerktir fuglar eru miklu líklegri til að sjást aftur. Gott dæmi eru íslenskir jaðrakanar. Undirritaður hóf litmerkingar á jaðrakönum ásamt félögum um síðustu aldamót (3. mynd). Fram að því höfðu merkingar með hefðbundnum stálmerkjum sem stundaðar höfðu verið í um hálfa öld skilað fáeinum einstaklingum í V-Evrópu og einhver mynd var komin á hvar þeir halda sig á veturna. Eftir að litmerkingar hófust, hefur álestrum af íslenskum jaðrakönum á vetrarstöðvum fjölgað í um 30 þúsund og líf þeirra utan varptíma er nú tiltölulega vel þekkt. Jaðrakan skilar reyndar óvenju mörgum álestrum því að vetrarútbreiðsla þeirra á þéttbýlum strandsvæðum V-Evrópu skarast við einhvern mesta þéttleika fuglaskoðara í heimi en þeir hafa augun hjá sér og senda okkur álestra. Álestrar áhugasamra á litmerktum jaðrakönum hafa skilað fjölbreyttum ávinningi og miklum upplýsingum og skemmtilegt yfirlit yfir þetta samstarf má finna á Wadertales bloggi Graham Appleton í pistli sem heitir „Godwits and godwiteers„.

3. mynd. Litmerktur jaðrakan. Þessi verpur við Laugardæli í Flóa en hefur vetusetu í Portúgal þar sem hann var merktur.

Tilgangur fuglamerkinga

Ef við skautum framhjá skýringum sem byggja á almennu gildi rannsókna fyrir mannlífið og mikilvægi þekkingar á náttúrunni þá er ljóst að fuglamerkingar hafa fjölbreytt gildi fyrir fuglarannsóknir. Raunar væri erfitt að stunda flestar gerðir fuglarannsókna án fuglamerkinga. Lykilatriðið er þetta: fuglamerkingar eru leið til að fylgjast með einstaklingum og stofnar eru byggðir upp af einstaklingum. Það er því sama hvort við erum að rannsaka einstaklinga (t.d. að pæla í atferli) eða stofna, við þurfum alltaf að geta rakið örlög einstaklinga. Stofn fugla (eða annarra lífvera) er skilgreindur hópur á tilteknu svæði. Til dæmis varpstofn heiðlóu á Íslandi, stofn dílaskarfa við Breiðafjörð eða stofn grágæsa í Evrópu. Stærð og útbreiðsla stofna ræðst af því hve margir einstaklingar koma inn í stofninn (verða til eða flytja inn) og hve margir hverfa úr stofninum (deyja eða flytja út). Til að meta alla þessa þætti þarf að fylgjast með einstaklingum. Því fleiri einstaklingum sem hægt er að fylgjast með því betri verða gögnin og niðurstöður áreiðanlegri. Þetta er ástæðan fyrir því að fuglamerkingar eru nauðsynlegar. Það sama á auðvitað við um rannsóknir á öðrum dýrum, þau eru merkt með fjölbreyttum hætti til að fylgjast með lífi þeirra svo draga megi ályktanir um stofninn. Smádýr eru oft merkt með málningu (t.d. mismunandi mynstri af blettum), stór dýr geta borið fjölbreytt og áberandi merki og menn hafa kennitölur svo eitthvað sé nefnt. Þá hafa peningar verið merktir til að fylgjast með flæði þeirra um hagkerfi. Allt gegnir þetta sama hlutverki, að fylgjast með einingum af einhverju tagi til að geta dregið ályktanir um hvernig söfn eininganna haga sér. Hvað fuglamerkingar varðar þá nýtast upplýsingar um merkta fugla meðal annars til að fylgjast með breytingum á lífslíkum, reikna út stofnstærðir, skoða hvernig tímasetningar í ársferlinum (t.d. fartími og varptími) tengjast loftslagsbreytingum og margt fleira.

4. mynd. Litmerkt sanderla í sunnlenskri fjöru. Sanderla er svokallaður umferðarfugl en þær fara um Ísland vor og haust á leið sinni til og frá hánorrænum varpstöðvum.

Hvað á að gera við upplýsingar um merkta fugla? 

Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Suðurlandi heldur úti litmerkingaverkefnum fyrir fjórar tegundir vaðfugla; jaðrakana, tjalda, spóa og sandlóur og við viljum endilega frétta af álestrum sem fyrst. Allar upplýsingar um merkta fugla, hvort sem þeir eru merktir með málmmerki eða litmerkjum skal senda til Náttúrufræðistofnunar Íslands (fuglamerki@ni.is) sem kemur upplýsingum svo áfram til merkjanda. Nánari upplýsingar má finna hér.

5. mynd. Litmerkt sandlóa í vorhreti í Bolungarvík (mynd: Böðvar Þórisson).

Að samræma kolefnisbindingu og aðra náttúruvernd

Mannkyn stendur frammi fyrir stærstu áskorun sinni hingað til. Að koma böndum á loftslagsbreytingar af mannavöldum. Þetta er sameiginlegt verkefni sem krefst víðtækari og fjölbreyttari samvinnu en áður hefur þekkst. Ekki þarf að fjölyrða um alvarleg áhrif loftslagsbreytinga. Þar nægir að nefna hækkandi sjávarstöðu, auknar öfgar í veðurfari, útdauða tegunda, súrnun sjávar, þurrka, hungursneyð, aukna flóttamennsku og fjölbreytta eymd sem af þessu leiðir. Loftslagsbreytingar af mannavöldum eru dauðans alvara.

Stelkamergð í sunnlenskri sveit

Aukinn þungi hefur færst í umræðuna hérlendis í kjölfar Parísarsamkomulagsins sem kveður á um að halda verði hnattrænni hlýnun innan við 1,5°C. Ýmsar leiðir eru færar, bæði til að draga úr losun og til að binda kolefni. Endurheimt votlendis, landgræðsla og skógrækt eru helst nefndar. Þetta eru allt mikilvægar leiðir og líklega full þörf á þeim öllum. En nauðsynlegt er að kortleggja hvernig mismunandi aðgerðir skarast við önnur markmið í umhverfismálum því ábyrgð þjóða í samfélagi heimsins liggur víða.

Ábyrgð Íslands í umhverfismálum kemur meðal annars fram í alþjóðlegum samningum á sviði Náttúruverndar. Þar má nefna Ramsarsamninginn um vernd votlendis, Ríósamninginn um vernd líffræðilegrar fjölbreytni og Bernarsamninginn um vernd evrópskra dýra, plantna og lífsvæða (sjá yfirlit á heimasíðu Umhverfis- og Auðlindaráðuneytis). Samningarnir eiga það allir sameiginlegt að með undirritun þeirra hefur Ísland skuldbundið sig til að vernda sérstöðu íslenskrar náttúru. Hér má nefna hátt hlutfall af sjaldgæfum vistgerðum og stóra farfuglastofna sem við deilum með öðrum þjóðum. Í fljótu bragði virðast endurheimt votlendis, landgræðsla og skógrækt allt vera leiðir sem geta fallið vel að markmiðum þessara samninga. Þó verður að gæta þess að aðgerðir vinni ekki hver á móti annarri, útfærsla þeirra hæfi markmiðinu og að þær styðji sem best við önnur markmið í náttúruvernd.

Íslensk stjórnvöld eiga verkefni fyrir höndum sem vinna þarf hratt og vel. Það felst í að greina áhrif aðgerða gegn loftslagsbreytingum á önnur brýn umhverfismál. Slík vinna fer nú fram víða um heim bæði á vettvangi vísinda og stefnumótunar. Miklir möguleikar eru á að nýta opinberan stuðning vegna aðgerða í loftslagsmálum til að ná einnig fram öðrum markmiðum í náttúruvernd og sjálfbærri nýtingu auðlinda. Forgangsraða þarf aðgerðum sem varða landnotkun, þvert á viðfangsefni í stjórnkerfinu, með framangreind sjónarmið að leiðarljósi.

Votlendi í Skálholtstungu

Viðhorf bænda til náttúruverndar

Safamýri

1. mynd. Safamýri í Rangárvallasýslu.

Náttúruvernd snýst um að vernda líf og land. Þau kerfi sem halda mönnum og öðrum kvikindum á lífi eru samtvinnuð. Ferlar sem verka í lofti, jarðvegi, vatni og lífverum spila saman á órjúfanlegan hátt og mynda þá sinfóníu sem náttúran er. Náttúruvernd í verki felst einkum í því að fara vel með auðlindir: land, vatn og loft. Árangur getur t.d. endurspeglast í góðri ræktunarmold sem ekki er gengið á, hreinu vatni og líflegu dýralífi. Miðað við mikilvægi náttúruverndar ætti að vera sjálfgefið að allir tækju þátt í henni af fúsum og frjálsum vilja. Svo er þó ekki. Hagsmunir af notkun á landi eru fjölbreyttir, oft nærtækari en óræð vernd, og afleiðingar landnotkunar koma oftast fram seinna og á öðrum mælikvörðum heldur en drifkraftar breytinga. Þannig geta smávægilegar breytingar á landnotkun sem þjóna staðbundnum hagsmunum (raunverulegum eða ímynduðum) haft lítil áhrif en uppsöfnuð áhrif margra slíkra breytinga geta haft veruleg neikvæð áhrif. Þannig koma raunar áhrif flestra breytinga á landi fram, sem uppsöfnuð áhrif á löngum tíma.

Náttúruvernd á landi á Íslandi hvílir mikið á herðum bænda af þeirri einföldu ástæðu að þeir eiga stóran hluta landsins og hafa atvinnu af nýtingu þess. Þá er lagaumhverfi náttúruverndar á Íslandi veikt, eignarréttur sterkur og því hafa landeigendur mikið vald til að gera bæði gagn og ógagn með notkun sinni á landi. Þessi blanda af eignarhaldi, hagsmunum og haldlitlum lögum er efniviður í harmleik ef illa tekst til. Í þessu samhengi má nefna að hraði landbreytinga er meiri á Íslandi en víðast hvar í Evrópu. Auk almennra hnattrænna markmiða í náttúruvernd eru góðar ástæður fyrir því að taka tillit til náttúrufars við landbúnað og aðra landnotkun. Góð umgengni við land styður gott orðspor landbúnaðar og getur verið hluti af gæðastýringu. Einnig hjálpar góð meðferð á landi við að ná markmiðum alþjóðlegra samninga á sviði náttúruverndar sem Ísland á aðild að. Þá getur náttúruvernd stutt við ferðaþjónustu sem gegnir orðið mikilvægu hlutverki í flestum sveitum.

Rannsóknir benda til að náttúruvernd nái frekar markmiðum sínum ef hagsmunaaðilar eru með í ráðum frá fyrstu stund. Því liggur beint við að kanna hug íslenskra bænda til náttúruverndar. Hvort þeir hafa áhuga á náttúrunni, hvernig þeir nýta hana og hvernig þeir upplifa ábyrgð sína.

lilja_mynd

Lilja Jóhannesdóttir

Lilja Jóhannesdóttir doktorsnemi við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Suðurlandi heimsótti bændur víða um land og ræddi við þá um náttúruvernd og landnotkun. Hún spurði sérstaklega um mófugla en þeir eru áberandi hópur lífvera, nátengdir frjósemi lands og landnotkun (3. mynd) og órjúfanlegur hluti af andrúmslofti sveitanna. Heimsóttir voru 24 bæir á Suðurlandi, 16 á Vesturlandi og 22 á Norðurlandi. Bæirnir voru af ýmsum stærðum, með fjölbreytt búfjárhald og bændur á ýmsum aldri og af báðum kynjum. Rannsakendum var alls staðar tekið vel og þetta ferðalag um landið fól í sér mikið kaffiþamb og lærdóm. Spurt var ýmissa spurninga og möguleikar á svörum voru yfirleitt fimm frá mjög líklegu yfir í mjög ólíklegt. Niðurstöður rannsóknanna birtust í tímaritinu Ecology and Society fyrir nokkrum dögum og greinina má finna hér.

nfr-vistkerfi

3. mynd. Einfalt líkan af landviskerfi Íslands sem sýnir dæmi um tengsl eðlisþátta, lifandi náttúru og landnotkunar (úr Náttúrfræðingnum 79: 2010).

Fyrst voru bændur spurðir hvort þeir hyggðust auka flatarmál ræktaðs lands á næstu 5 árum (spurt 2013-2014). Yfir helmingur (63%) sögðust vera líklegir eða mjög líklegir til að auka við ræktað land. Nokkrir voru hlutlausir en af þeim 20% sem sögðust ólíklegir eða mjög ólíklegir til að auka ræktun kváðust 8% ekki hafa meira land til ræktunar. Miðað við þessi svör má telja mjög líklegt að flatarmál ræktaðs lands aukist verulega á næstu árum.

Næst var spurt um viðhorf til fuglaverndar. Nær allir bændur (97%) sögðu að það væri mikilvægt eða mjög mikilvægt að hafa ríkulegt fuglalíf á jörðum sínum. Eldri bændur reyndust ívið jákvæðari fyrir fuglavernd en þeir yngri. Þegar spurt var hvort bændur tækju tillit til fugla við landnotkun sögðust aðeins um 30% þegar gera það. Þegar spurt var um hvaða aðgerðir það væru sem bændur gripu til fyrir fugla voru algengustu svörin að þeir reyndu að hlífa fuglum í slætti og tjörnum við raski.

Þá voru bændur spurðir hver afstaða þeirra væri til nokkurra þátta er varða landnotkun og eru þekktir að því að hafa mikil áhrif á fugla. Fyrst var spurt hvort þeir væru líklegir til að stýra beit þannig að hún gæti hentað fuglum (mófuglar þrífast best við hóflega beit). Yfir helmingur bænda taldi að þeir myndu gjarnan stýra beit fyrir fugla ef upplýsingar um slíkt lægju fyrir. Þá var spurt hvort bændur væru líklegir til að hlífa tjörnum og pollum við framræslu. Yfir 90% sögðust þegar gera það eða vera líklegir til að hlífa þessum mikilvægu búsvæðum. Um 60% bænda sögðust vera líklegir til að stýra almennri landnotkun á jörðum sínum til hagsbóta fyrir fugla ef fyrir lægju upplýsingar um hvaða hlutar jarðarinnar væru mikilvægastir. Að síðustu var spurt hvort að mögulegt væri að seinka slætti ef það gæti hjálpað fuglum. Það töldu flestir ómögulegt vegna norðlægrar stöðu landsins. Spurt var hvort að greiðslur gætu breytt afstöðu til ofangreindra þátta en fæstir töldu að það skipti máli.

IMG_18092015_101536

Samantekt

Náttúruvernd á Íslandi veltur mikið á að bændur hafi áhuga á henni. Náttúruvernd er af ýmsum toga en þessi rannsókn snerist um að kanna viðhorf bænda til verndar mófugla. Íslenskir bændur virðast langflestir hafa áhuga á að viðhalda ríkulegu fuglalífi á jörðum sínum og vera reiðubúnir að leggja nokkuð á sig til að viðhalda þessari sérstöðu íslensku sveitanna. Þessar upplýsingar hafa ekki legið fyrir áður en niðurstöðurnar eru bæði gleðilegar og vekja bjartsýni.

Víða í nágrannalöndum okkar eru kerfi til staðar sem umbuna bændum fyrir að að taka tillit til náttúrufars umfram það sem lagaákvæði kveða á um. Innan sameiginlegu landbúnaðarstefnu Evrópu (CAP) eru til dæmis slík kerfi (e. Agri-environmental schemes). Í þeirri samvinnu felst viðurkenning á mikilvægi þess fyrir samfélagið, að samræma matvælaframleiðslu og náttúruvernd. Engin slík kerfi eru til staðar á Íslandi umfram það sem tilgreint er í haldlitlum lögum um náttúruvernd. Af þessum sökum var spurt hvort að það væri líklegt til að hafa áhrif á þátttöku bænda í náttúruvernd ef greiðslur væru í boði. Á þessu stigi töldu bændur það ekki líklegt til að breyta miklu en vera má að það sé vegna þess að slíkt hefur ekki verið rætt mikið á Íslandi. Eins má nefna að greiðslur til annarra þátta eru þegar til staðar og talsvert nýttar, t.d. vegna landbúnaðarframleiðslu og skógræktar. Því er ekki ólíklegt að bændur myndu líka nýta sér möguleika á að stunda náttúruvernd gegn greiðslu ef slíkt væri í boði. Það hefur einnig verið reyndin í öðrum löndum. Náttúruvernd getur aldrei verið á herðum bænda og landeigenda einna, stjórnvöld og almenningur verða að styðja þá í að fara vel með landið. Náttúruvernd verður að byggja á samfélagsátt sem felur í sér gangkvæma ábyrgð og skilning. Sterkari aðkoma stjórnvalda að náttúruvernd í samstarfi við bændur er eina leiðin til að vernda náttúruauðlindir á Íslandi. Almenningur verður einnig að vera meðvitaður og styðja þá bændur sem standa sig vel. Í slíku samspili felast mörg tækifæri.

Við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Suðurlandi stendur fyrir dyrum vinna sem miðar að því að taka saman vísindalegar upplýsingar um tengsl landnotkunar og fuglalífs á Íslandi. Stefnt er að því að miðla þeirri þekkingu á aðgengilegan hátt til sem flestra sem hún kæmi að gagni.

 

Heimildir

Jóhannesdóttir, L., Alves, J.A., Gill, J.A. & Gunnarsson, T.G. 2017. Reconciling biodiversity conservation and agricultural expansion in the sub-arctic environment of Iceland. Ecology and Society. https://doi.org/10.5751/ES-08956-220116

Europe, C. o. 2002. Convention on Conservation of European Wildlife and Natural Habitats – Standing Committee. Recommendation No. 96 on conservation of natural habitats and wildlife, specially birds, in afforestation of lowland in Iceland, adopted by the Standing Committee on 5 December 2002. 

Hodge, I., J. Hauck, and A. Bonn. 2015. The alignment of agricultural and nature conservation policies in the European Union. Conservation Biology 29:996-1005.

Steve M. Redpath,  Juliette Young, Anna Evely, William M. Adams, William J. Sutherland, Andrew Whitehouse, Arjun Amar, Robert A. Lambert, John D.C. Linnell, Allan Watt & R.J. Gutiérrez 2013. Understanding and managing conservation conflicts. Trends in Ecology & Evolution 28: 100-109.

Elke Wald 2012. Land-use Development in South Iceland 1900-2010. Meistaritgerð við Háskóla Íslands. Slóð: http://hdl.handle.net/1946/10804

landeyjar

Áhrif eldgosa á varpárangur jaðrakans

fridl

Eldvirkni mótar náttúru Íslands á sýnilegri hátt en á við um flest önnur lönd. Hér eru ferlar landmótunar mjög virkir og eldgos verða að jafnaði á fárra ára fresti. Fram undir þetta hafa tengsl eldosa við hina lifandi náttúru þó verið lítið könnuð. Ástæðan er helst sú að erfitt að skipuleggja rannsóknir svo að þær nemi áhrif jafn óreglulegra atburða og eldgos eru. Helst er það ef eldgos verða þar sem langtímavöktun á umhverfisþáttum hefur verið stunduð að draga má ályktanir um áhrif eldgosa. Ein mikilvægasta ástæðan fyrir gagnsemi langtímarannsókna er einmitt að þær nema áhrif sjaldgæfra atburða.

Nýlega hafa  safnast upp vísbendingar um tengsl eldvirkni við fuglalíf. Þegar horft er til langs tíma virðast áhrif eldvirkni vera jákvæð því þéttleiki mófugla er að jafnaði hærri í þeim landshlutum þar sem áfok gosefna er hvað mest. Líklega hefur áfokið áhrif  á sýrustig og næringarefnabúskap sem verkar upp í gegnum fæðukeðjur og birtist í mismiklum þéttleika fugla. Skammtímaáhrif öskufalls í tengslum við eldgos virðist þó hafa neikvæð áhrif á mófugla. Nýlegar rannsóknir á spóa í Rangárvallasýslu í tengslum við gosin í Eyjafjallajökli 2010 og Grímsvötnum 2011 sýndu að varpárangur var verri þar sem öskufall var meira. Nú nýlega birtust niðurstöður hliðstæðra rannsókna á jaðrakan í Rangárvallasýslu sem sýna sama mynstur.

Varpárangur jaðrakana hefur verið vaktaður í lok júní síðan 2011. Vöktunaraðferðin er einföld. Ekið er eftir sömu vegum og slóðum á hverju ári í síðustu viku júní. Heildarlengd sniðsins er 198 km. Ekið er á hámarkshraða 40 km á klst (eðlilegur ferðahraði fuglafræðinga) með glugga opna í þurru og fremur lygnu veðri. Jaðrakanar með unga eru sýnilegir og láta heyra vel í sér og eldri rannsóknir sýna að jaðrakanar sem láta þannig eru nær undantekningalaust með unga þó felugjarnir ungarnir sjáist ekki nema með talsverðri fyrirhöfn. Þegar vart verður við reiða jaðrakanaforeldra er bíllinn stoppaður (oftast fyrirvaralaust, túristar hvað) og hornrétt fjarlægð foreldranna (eða unganna ef þeir sjást) frá vegi mæld til að staðla breidd sniðsins. Mælieining á varpárangur er fjöldi ungahópa/para með unga á sniðinu öllu en of tímafrekt er að telja ungana sjálfa. Með þessum einfalda hætti má fá ódýra vísitölu á varpárangur á stórum svæðum.

Árferði hefur mikil áhrif á varpárangur vaðfugla og í þessari rannsókn komu fram sterk tengsl milli varpárangurs og vorhita (1. mynd). En eina árið (2011) þar sem áhrifa eldgosa gætti að marki féll varpárangur niður í næstum ekki neitt þrátt fyrir milt vor. Talsvert var um ösku á athugunarsvæðinu. Smádýragildrur sem notaðar voru til að meta fæðuframboð fylltust af ösku og rannsóknarmenn notuðu andlitsgrímur verstu dagana. Líklega á það sama við hér og í rannsókninni á spóa sem nefnd var að ofan að aska í miklum mæli hefur neikvæð áhrif á fæðuframboð en ýmis smádýr sem eru helsta fæða vaðfugla virðast þola öskufall illa. Bætt var við mælingum á fleiri tegundum sem þessi vöktunaraðferð hentar fyrir árið 2012 og þær hjálpa okkur vonandi líka að skilja betur hvaða þættir stjórna stofnum íslenskra mófugla þegar árin líða.

Jaðrakan ungahópar

Tengls milli vorhita og varpárangurs jaðrakans í Rangárvallasýslu. Að jafnaði eru fleiri pör með unga í lok júní í árum þegar hiti í maí er hærri. Árið 2011 þegar áhrifa ösku gætti víða á athugunarsvæðinu skar sig úr (opinn hringur) og varpárangur var nær enginn.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Heimildir

Katrinardottir, B., Alves, J.A., Sigurjonsdottir, H., Hersteinsson, P. & Gunnarsson, T.G. 2015. The effects of habitat type and volcanic eruptions on the breeding demography of Icelandic Whimbrels Numenius phaeopus. PLOS One. DOI: 10.1371/journal.pone.0131395

Gunnarsson, T.G., Jóhannesdóttir, L., Alves, J.A. & Gill, J.A. 2017. Effects of spring temperature and volcanic eruptions on wader productivity. Ibis, doi: 10.1111/ibi.12449

Gunnarsson, T.G., Arnalds, O., Appleton, G., Mendés, V. & Gill, J.A. 2015. Ecosystem recharge by volcanic dust drives broad-scale variation in bird abundance. Ecology and Evolution. DOI: 10.1002/ece3.1523

 

 

Flug spóans

IMG_08092015_100414

 

Þegar spóinn vellir graut er úti vetrarþraut segir hið fornkveðna. Þessi gamli sannleikur endurspeglar raunveruleikann því spóinn kemur með síðustu fuglum til landsins, flestir í byrjun maí, þegar líkur á vorhretum eru orðnar litlar. Hefðbundnar merkingar með númeruðum stálhringjum sýndu á síðustu öld að spóinn fer til V-Afríku á veturna. Nýleg samantekt á öllum endurheimtum merktra spóa sem merktir hafa verið hérlendis á vegum Náttúrufræðistofnunar Íslands, sýnir að endurheimtur að vetri eru flestar í V-Afríku frá Máritaníu til Benín og Togo en endurheimtur að vori eru flestar á Bretlandseyjum. Sárafáar endurheimtur eru af íslenskum spóum í Evrópu að haustinu (sjá kort að neðan). Þetta mynstur gaf snemma vísbendingar um að íslenskir spóar flygju mögulega beint frá Íslandi til V-Afríku á haustin, allt að 6000 km í einum rykk! Efasemdir voru lengi vel um að landfuglar sem ekki geta hvílt sig á sjónum væru færir um slíkt langflug. En með tilkomu nýrra mælitækja á síðstu árum hefur þó sést að sumir landfuglar eru færir um ótrúleg flugafrek.

spoakort

Allar endurheimtur af stálmerktum spóum frá Íslandi. Rauðir punktar = vetur (1. okt -31. mars), Grænir þríhyrningar = vor (1. apr – 30. jún), appelsínugulir þríhyrningar (1. júl –30. sept), hívtur depill = dagsetning óþekkt. Kortið er mercator vörpun. (Gunnarsson & Guðmundsson 2016. Wader Study 123(1): 44–48.

Nú höfum við komist nær því að leysa gátuna um flug spóans en starfsmenn Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Suðurlandi ásamt samstarfsfólki hafa sett svokallaða dægurrita á nokkra sunnlenska spóa á síðustu árum. Dægurritar eru lítil mælitæki á stærð við fingurnögl sem fuglar á stærð við spóa bera auðveldlega. Dægurritarnir mæla sólargang og út frá þeim upplýsingum má reikna hnattstöðu fuglanna með viðunandi skekkju þegar svo löng ferðalög eru til skoðunar. Fyrstu niðurstöður rannsóknanna birtust í Scientific Reports í dag. Fylgst var með fjórum spóum yfir heilt ár. Allir spóarnir fjórir flugu beint til V-Afríku að hausti án þess að stoppa en allir yfirgáfu ísland 3.-6. ágúst. Þeir voru 79-120 klukkutíma á flugi (um 4-5 sólarhringa) og vegalengdin sem þeir fóru var frá 3898 til 5535 km. Meðalferðahraðinn á leiðinni allri var um 50 km/klst. En sumir leggir ferðarinnar voru þó mun hraðari, allt upp í að vera 80-90 km/klst. Þetta er einhver mesti hraði sem mælst hefur hjá landfuglum á langferðum yfir sjó. Reiknað var samband milli ferðahraða spóa og vindhraða í mismunandi hæð til að meta hversu hátt spóarnir flugu. Besta sambandið var við vindhraða í 1,5 km hæð sem bendir til að þeir fljúgi nokkuð hátt.

Á vorfarinu brá svo við að tveir fuglanna höfðu viðdvöl á Bretlandseyjum en tveir þeirra flugu beint. Fuglarnir yfirgáfu Afríku 20.-29. apríl. Þeir sem flugu beint náðu til Íslands 29. apríl og 4. maí en þeir sem höfðu viðkomu á Bretlandseyjum dvöldu þar 11 og 15 daga og komu til Íslands 12. og 14. maí.

srep38154-f2

Hér má sjá flugleiðir fjögurra spóa sem merktir voru með dægurritum. Haustfarið til vinstri og vorfarið til hægri. Allir spóarnir fjórir flugu beint til Afríku að hausti en að vori höfðu tveir þeirra viðdvöl á Bretlandseyjum (Alves o.fl. 2016. Scientific Reports, doi:10.1038/srep38154).

spóFlestir fullorðnir spóar yfirgefa Ísland á stuttum tíma um mánaðamótin júlí-ágúst. Á þessum tíma má oft sjá góða hópa af spóum við suðurströndina að undirbúa sig fyrir átökin. Þeir eru búnir að fita sig um tugi prósenta þegar kemur að stóru stundinni og það er auðsjáanlegt hvað flugtakið reynist þeim erfiðara á þessum tíma. Það er hægt að skynja óróleikann í spóunum þar sem þeir bíða eftir hentugu veðri, gjarnan norðlægum áttum og björtu. Þeir virðast oft leggja af stað í uppstreyminu síðdegis. Ef heppnin er með má sjá væna spóahópa skrúfa sig upp eins og hjól þar sem þeir leita að hentugum meðvindi og réttri hæð. Þeir gefa frá sér klingjandi flaut til að halda hópnum saman. Fáeinir hætta við og bíða eftir nýjum degi. Flestir halda þó áfram. Löngu eftir að augað hættir að greina spóana má ennþá heyra angurvært flautið uppi í heiðblámanum.

Heimildir:

Gunnarsson, T.G. & G.A. Guðmundsson. 2016. Migration and non-breeding distribution of Icelandic Whimbrels Numenius phaeopus islandicus as revealed by ringing recoveries. Wader Study 123(1): 44–48.

Alves, J.A., Dias, M.P, Méndez, V., Katrínardóttir, B. & Gunnarsson, T.G. Very rapid long-distance sea crossing by a migratory bird. Scientific Reports 6:38154,  DOI: 10.1038/srep38154.

Veðurfræðingar ljúga – ekki lengur

cropped-landeyjar.jpg

 

Fyrir nokkrum árum hljómaði hið stórskemmtilega lag Veðurfræðingar ljúga með Bogomil font og Flís reglulega í útvarpinu. Þar er farið ómjúkum höndum um getu veðurfræðinga til að spá fyrir um veður. Þó lagið sé fyndið er það ekki alls kostar sanngjarnt því að veðurfræðingar eru orðnir býsna góðir spámenn. Flestir sem komnir eru eitthvað til ára sinna muna þegar veðurspár voru miklu ónákvæmari en í dag. Nú eru veðurspár mjög nákvæmar fáeina daga fram í tímann, segja heilmikið fyrir næstu vikuna og lengstu spár eru jafnvel pínulítið betri en almenn veðurfarsþekking (lýsingar á meðalveðri á tilteknu svæði á tilteknum árstíma). Þetta er hreint ekki svo slæmt enda skipuleggja margir líf sitt í kringum veðurspár sem þeir myndu ekki gera ef veðurfræðingar væru sífellt að ljúga.

En af hverju hefur veðurspám fleygt fram? Nærtækra skýringa má væntanlega leita í almennum framförum í faginu, öflugri tölvum og fleiru en meginástæðan er önnur. Hún er sú að menn áttuðu sig snemma á  gildi þess að spá fyrir um veður og fjárfestu í nauðsynlegum innviðum til að gera veðurspár og bæta. Hér má nefna sterkar stofnanir, mannaðar veðurstöðvar (og sjálfvirkar seinna), veðurskip, radarstöðvar, gervihnetti og fleira. Með öllu þessu má betur skilja tengsl veðurfyrirbæra og spá fyrir um hvaða aðstæður leiða af sér tiltekið veður. Spár um framtíðina byggja jú alltaf á að skilja tengsl fyrirbæra í fortíðinni. Og fjárfestingin hefur skilað sér. Við fáum fínar veðurspár sem gagnast á mörgum sviðum mannlífsins. Til dæmis í tengslum við ferðalög, samkomur, ýmsar framkvæmdir, leik og störf. Almennt má segja að fjárfesting í vísindum og rannsóknum tengist náið nærtækri skynjun manna á notagildi. Og nú kemur að vistfræðinni.

Vistfræði fæst í stórum dráttum við tengsl lífvera og umhverfis. Viðfangsefnin eru margvísleg, frá mælikvarða einstakra lífvera upp í hnattræna ferla sem verka í lífhvolfinu* öllu. Það er óhætt að segja að vistfræði glími við flest stóru vandamál mannkyns eins og áhrif loftslagsbreytinga, þurrka, jarðvegseyðingu, tap á líffræðilegri fjölbreytni, mengun, vatnsgæði og margt fleira. Fjölbreyttar grunnrannsóknir í vist- og þróunarfræði eru að auki nauðsynlegar til að byggja upp þekkingu á þeim ferlum sem þarf til að skilja gang vistkerfa. Vistfræðin kemur þvert á ýmis fög eins og jarðfræði, veðurfræði og félagsfræði enda eru flest stóru vandamálin þverfagleg í eðli sínu. Vistkerfi eru flókin og líklega flóknustu kerfi sem menn fást við að reyna að skilja**. Þetta væri kannski ekki sérstakt vandamál fyrir fólk ef mannkynið væri ekki algerlega háð vistkerfum. Loftið sem við öndum að okkur, fæðan sem við innbyrðum og hráefni í það sem við búum til er allt háð því að náttúrulegir ferlar á landi, í lofti, vatni og jarðvegi séu í þokkalegu lagi. Neysla jarðarbúa er nú þegar meiri en jörðin stendur undir og það er mjög ólíklegt að við finnum jafnvægi milli verndunar og nýtingar nema með betri skilningi á vistkerfum og tengslum þeirra við athafnir manna. Og þá komum við að fjárfestingunni. Af einhverjum ástæðum, og það er ekki séríslenskt vandamál þó það sé áberandi hér,  hefur þjóðum í stórum dráttum mistekist að byggja upp vistfræðirannsóknir að því marki að þær hafi gott forspárgildi. Eins og til dæmis rannsóknir í veðurfræði hafa. Þetta er staðreynd þrátt fyrir að þekking í vistfræði hafi óumdeilt gildi fyrir framtíð mannkyns. Það mætti ræða líklegar ástæður fyrir þessu getuleysi en það bíður betri tíma. Mig langar hér aðeins að kasta fram örfáum grundvallarspurningum sem við gætum líklega haft svör við ef innviðir rannsóknastarfs myndu endurspegla raunverulegt gildi slíkra rannsókna. Nú er ég ekki að halda því fram að það sé ekkert vitað um þessi mál því sumt er þekkt að einhverju marki. Þessar spurningar eru valdar þannig að hver sem er ætti að sjá að nærtækt gildi, a.m.k. sumra þeirra.

-Hvaða áhrif hefur framburður úr jökulám á nytjastofna fiska á grunnsævi?

-Hvaða áhrif hefur fiskeldi á laxfiska í ám og vötnum?

-Hvaða áhrif hafa gróðurbreytingar af mannavöldum (t.d. beit og þangskurður)  á aðrar nytjar og líffræðilega fjölbreytni?

-Hvaða áhrif hefur landbúnaður á vatnsgæði á viðkomandi svæðum?

-Hvaða áhrif hafa vatnsgæði landbúnaðarsvæða á líffræðilega fjölbreytni?

-Hver eru tengsl líffræðilegrar fjölbreytni og grunnvatns (magns og gæða)?

-Hvaða áhrif hefur landbúnaður á myndun og viðhald jarðvegs?

-Hver er dreifing líffræðilegrar fjölbreytni (t.d. áberandi tegunda hryggdýra og plantna) yfir landið og hvernig skarast sú dreifing við yfirstandandi eða líklegar nytjar á náttúrunni?

-Hvaða áhrif hefur landbútun, þegar landi er skipt niður í smærri og smærri einingar (e. habitat fragmentation ) t.d. með vegagerð og sumarhúsum,  á líffræðilega fjölbreytni?

-Hvaða áhrif hefur mengun frá iðnaði á skilyrði fyrir landbúnað?

Þessar spurningar gefa ekki tæmandi yfirlit af neinu tagi, þetta eru bara þær tíu fyrstu sem flutu upp á yfirborð vitundarinnar. Það er hægt að spyrja margra annarra og þessar má bæta og prjóna við. En þær gefa ágæta mynd af tengslum vistfræði við líf fólks og eru að sama skapi átakanlega mannhverfar. Ef við hefðum skýr svör við þessum spurningum gætu þau forðað okkur frá afdrifaríkum mistökum, sparað mikla fjármuni við stefnumótun og skipulagsmál og varðveitt lífsgæði á Íslandi. Þegar við höfum svör við þessum spurningum má spyrja enn nærtækari spurninga um hagsmuni. Til dæmis um fjárhagslegan kostnað og ávinning  við nýtingu eða vernd. Auðvitað þarf ýmsar grunn- og stuðningsrannsóknir til að svara svona spurningum og þær tengjast vissulega almennum viðfangsefnum í vistfræði. Hér má benda á nýlega samantekt fjölda vísindamanna sem greindu 100 mikilvægar spurningar í vistfræði. Það má telja sérstakt áhyggjuefni að þær stofnanir sem fást við þessar rannsóknir á grundvallarlífsskilyrðum skuli ekki vera betur fjármagnaðar. Háskólarnir eru fjársveltir og rannsóknastofnanir sem hafa lögbundið hlutverk við skráningu náttúrunnar þurfa að stórum hluta að fjármagna sig með útseldri vinnu vegna verklegra framkvæmda. Það má gera því í skóna að meiri hluta þess fjármagns sem hið opinbera hefur varið til náttúrurannsókna á Íslandi hafi verið ráðstafað af framkvæmdastofnunum eins og orkufyrirtækjum en ekki af vísindastofnunum í náttúrufræði. Líklegar afleiðingar eru þær að hér skortir víðtækar rannsóknir sem nýtast þjóðinni á breiðum grunni en miklum fjármunum hefur verið varið í rannsóknir á afmörkuðum framkvæmdum sem voru jafnvel aldrei efnilegar.

 

*Lífhvolf (e. biosphere) er hinn lífræni hluti jarðarinnar og í nánum tengslum við ferla og hringrásir í lofti, vatni og í jörðu.

**Vistfræðirannsóknirnar sjálfar eru sjaldan eins flóknar og viðfangsefnið gefur tilefni til enda eru þeim settar þröngar skorður hvað varðar aðferðir og umfang. Einhver lýsti nálgunum vistfræðinga líkt og spilað væri á píanó með hamri. En vistkerfin sjálf eru afar flókin, þau hafa afar marga hluta sem tengjast á mjög marga vegu og vistkerfi breyta sér sjálf í sífellu með náttúrulegu vali. Eitt stingandi strá er örugglega margbrotnara kerfi en flóknustu mannvirki og vistkerfi í fábrotnum móa er stærðargráðum fjölbreyttara en hagkerfi heimsins (þ.e. ef við gerum ráð fyrir að hagkerfi séu ótengd náttúrunni eins og algengast er). Hér má vitna í Carpender (2009) og heimildir þar:  „Ecology is not rocket science – it is far more difficult . The most intellectually exciting ecological questions, and the ones most important to sustaining humans on the planet, address the dynamics of large, spatially heterogeneous systems over long periods of time. Moreover, the relevant systems are self-organizing, so simple notions of cause and effect do not apply. Learning about such systems is among the hardest problems in science, and perhaps the most important problem for sustaining civilization.

 

Heimildir:

Carpender, S.R. 2009. Bls. vii-ix í:  Real World Ecology. Large-Scale and Long-Term Case Studies and Methods. Ritsjórar Miao, S.L., Carstenn, S. & Nungesser, S. Springer Science, NY.

Sutherland, W.J. o.fl. 2013. Identification of 100 fundamental ecological questions. Journal of Ecology 101: 58–67.

 

 

 

Dýralíf og uppgræðsla

l17a4518

Heiðlóa og lúpina

Stórir hlutar Íslands eru lítt grónir og ýmsar aðferðir hafa verið notaðar til að græða upp land í gengum tíðina. Að jafnaði þarf ekki að fjölyrða um ágæti uppgræðslu en hún hefur fjölbreytt jákvæð áhrif á jarðveg, loft, vatn og lífríki. Þó getur verið æskilegt að viðhalda sýnishornum af ógrónu landi þar sem það á við. Að einhverju leyti sér landið sjálft um að viðhalda lítt grónum svæðum þar sem ágangur náttúruafla er mestur en slík svæði eru hluti af sérstöðu Íslands og hafa fjölbreytt gildi fyrir sérhæfðar lífverur og fólk. Þegar græða á upp land er hægt að beita ýmsum aðferðum. Þær aðferðir sem hafa mest verið notaðar á Íslandi eru: A) Beitarfriðun og áburðargjöf.  B) Beitarfriðun, sáning á grasfræi, einkum túnvingli, ásamt áburðargjöf. (C) Sáning á lúpínu. Fyrri aðferðirnar framkalla snögglendi á fyrri framvindustigum, vaxið frumherjum eins og krækilyngi og mosa ásamt grasi. Þetta land mætti kalla mólendi en það fer þó eftir undirlagi, landnotkun, loftslagi og fleiri þáttum hver framvindan verður. Erfitt er að gefa búsvæðum, sem eru í eðli sínu fjölbreytt, einföld nöfn þó auðvelt geti verið að lýsa mun á búsvæðum með mælingum. En á fyrri framvindustigum (fáir áratugir) er mólendi ágætt vinnuheiti á þessum svæðum. Þriðja aðferðin, lúpínusáning, er afskaplega skilvirk ef markmiðið er að mynda gróðurhulu hratt. Lúpína er niturbindandi (þarf ekki áburð) og er mjög dugleg á ógrónu landi. Lúpína er orðin áberandi í öllum landshlutum. Nýlegt mat Náttúrufræðistofnunar Íslands bendir til að lúpína þeki að minnsta kosti 314 km2 en líklega er þó útbreiðslan talsvert meiri með þeim fyrirvörum sem þar eru gefnir. Lúpína getur myndað þéttar breiður á fáum árum. Misjafnt virðist vera hvort hún hörfar svo eða ekki en það virðist fara eftir loftslagi og landnotkun. Það gefur auga leið að uppgræðsluaðferðir sem mynda svo ólík búsvæði og mólendi og lúpínubreiður eru líklegar til að hafa ólík áhrif á dýralíf en einn mælikvarði á árangur uppgræðsluaðferða getur verið hvernig þær styðja við mismunandi þætti líffræðilegrar fjölbreytni.

Sumarið 2011 vann Brynja Davíðsdóttir að meistaraverkefni sínu við Landbúnaðarháskóla Íslands í samstarfi við Landgræðslu ríkisins og Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Suðurlandi. Verkefni hennar fólst í að bera fugla- og smádýralíf saman milli þeirra tveggja uppgræðsluaðferða sem nefndar eru að ofan og ógróið land var einnig í samanburðinum. Niðurstöður rannsóknanna komu nýlega út í tímaritsgrein sem finna má HÉR og þar má jafnframt finna heimildir fyrir því sem ritað er hér að ofan. Hér að neðan eru niðurstöður samandregnar.

fridl

Jaðrakan

Áhrif uppgræðslu á fuglalíf

Fuglalíf jókst mikið með báðum uppgræðsluaðferðunum. Að jafnaði var 31 fugl/km2 á ógrónu landi, 337 fuglar/km2 í mólendi og 627 fuglar/km2 í lúpínu. Þannig má sjá að uppgræðsla eykur fjölda fugla um stærðargráðu og tvöfalt fleiri einstaklingar fugla eru í lúpínubreiðum en í mólendi. Í mólendi eru ívið fleiri tegundir algengar og þar finnast fyrst og fremst algengar tegundir mófugla eins og heiðlóa, lóuþræll, spói og þúfutittlingur. Í lúpínu er þúfutittlingur í ofurþéttleika en annar hver fugl í lúpínu er þúfutittlingur. Í lúpínu finnast einnig í talsverðum mæli fuglar sem fela hreiður sín eins og hrossagaukur og stelkur. Þannig má segja að uppgræðsla sem framkallar mólendi styður við fuglasamfélög sem byggjast upp af tegundum sem þurfa opið land og útsýni en lúpína styður við felugjarnari tegundir sem þrífast í hærri gróðri, sumar þeirra eru tegundir sem dafna vel í kjarrlendi eða gisnum skógi eins og þúfutittlingur og hrossagaukur.

Áhrif gróðurframvindu

Samanburður á þéttleika milli allra mólendis- og lúpínubletta sem skoðaðir voru segir ekki alla söguna því framvindustig beggja vistkerfa hefur mikil áhrif á hvernig þau henta fyrir mismunandi tegundir. Talsverður munur var á framvindustigi mólendisbletta sem voru skoðaðir allt frá því að vera á fyrstu stigum framvindu frá ógrónu landi upp í að vera vel grónir með fjölbreyttum gróðri. Sama mátti segja um lúpínuna. Sumar breiður voru gisnar, aðrar þéttar og á enn öðrum stöðum var lúpína farin að hörfa fyrir öðrum gróðri. Blettum var skipt upp eftir framvindustigi og áhrif framvindu á þéttleika fugla könnuð til að reyna að skilja betur ferlið sem mótar tengsl fuglaþéttleika og þessara búsvæða. Spóinn er áhugavert dæmi. Þegar allir blettir voru bornir saman var þéttleiki spóa í mólendi og lúpínu hliðstæður. Ef þéttleika spóa var skipt upp eftir framvindustigi má sjá að þéttleiki jókst með framvindu í mólendi en í lúpínu fannst spói bara í gisinni eða hörfandi lúpínu en ekki í þéttri. Kjörlendi spóa eru hálfgrónar áreyrar þar sem skiptast á ógrónir blettir og toppar af hrossanál og víðirunnum. Hugsanlega hefur gisin lúpína hliðstæð áhrif en einnig er mögulegt að lúpína hafi verið að fara yfir hentug spóasvæði og að þeir hafi látið sig hafa gisnu framvindustigin en ekki það þétta. Um þetta verður ekki fullyrt án frekari rannsókna. Sama má segja um stelk að hann kom ekki fram í þéttri lúpínu í þessari rannsókn. Einkennistegundir lúpínu, þúfutittlingur og hrossagaukur voru hins vegar í mestum þéttleika í þéttri lúpínu (þúfutittlingur líka í hörfandi). Því má sjá að það eru ekki bara þær uppgræðsluaðferðir sem notaðar eru sem stýra hvernig fuglasamfélög mótast heldur ræður framvinda gróðurs miklu um hvaða fuglategundir dafna og hverjar hörfa.

Þá er vert að nefna  að flestir fuglar þurfa fjölbreytt skilyrði til að uppfylla þarfir sínar, t.d. fyrir hreiðurgerð og fæðunám fyrir fullorðna og unga. Þessu má líkja við fólk sem hefur gjarnan eldhús, stofu og salerni í hýbílum sínum. Tæknilega séð kæmist fólk af með að búa bara á klósettinu en það yrði þó leiðigjarnt til lengdar. Að sama skapi nota fuglar oft ýmsar búsvæðagerðir samhliða og fjölbreytni í búsvæðum hefur mikil áhrif á fjölbreytni fuglalífs.  Af þessum sökum skiptir miklu máli hvaða búsvæðagerðir eru nálægt þeim sem verið er að telja fugla í. Þetta var ekki kannað kerfisbundið í þessu verkefni en búast má við að talsvert af breytileika í tölunum skýrist af því hvaða búsvæði voru nálægt talningasvæðunum. Jaðaráhrif eru almennt vandamál í rannsóknum við óstaðlaðar aðstæður í blettóttu umhverfi og ekki sérstök ástæða til að hafa áhyggjur af þeim hér.

l17a5324-2000x1334

Hunangsfluga á víði

Áhrif uppgræðslu á smádýralíf

Smádýralíf var kannað með því að háfa á staðlaðan hátt af gróðri á sömu stöðum og þar sem fuglar voru taldir. Ekki kom á óvart að fleiri smádýr fundust þar sem gróður var meiri en smádýr voru flest í lúpínu og fæst á ógrónu landi. Þúfutittlingur var eini algengi fuglinn sem getur nýtt sér að marki skordýr á hávaxnari gróðri eins og lúpínu því hann getur tekið fæðuna á flugi ólíkt jarðbundnari tegundum sem taka mest smádýr á yfirborði. Lúpínan hentar honum því afar vel, þar er auðvelt að fela hreiður og þar er gnótt fæðu sem lítil samkeppni er um eins og t.d. mófeta sem er algengt fiðrildi í lúpínu. Án tillits til búsvæðagerðar voru jákvæð tengsl milli fjölda smádýra og fjölda fugla ef allir talningastaðir voru hafðir til hliðsjónar. Þar sem meira var af smádýrum var líka meira af fuglum. Þá var gerður samanburður á því hversu mörg smádýr veiddust í háf og í fallgildrur (sem veiða smádýr á yfirborði) á völdum svæðum á Suðurlandi. Almennt var nokkuð góð fylgni þar á milli, þar sem fleiri dýr veiddust í háf veiddust fleiri í fallgildrur. Veiði smádýra með annarri aðferðinni gefur því vísbendingar um hversu mörg dýr eru af hópum sem veiðast bara með hinni. Í þeim búsvæðum sem hér voru til skoðunar má því sjá að fuglalíf, smádýr á yfirborði og smádýr á gróðri helst allt í hendur sem hefur hagnýtt gildi þegar afla þarf harðsoðinna vísbendinga um líffræðilega fjölbreytni.

Niðurlag

Það þarf fjölbreyttar upplýsingar til að bera saman ágæti mismunandi uppgræðsluaðferða. Praktískir hlutir eins og kostnaður og hversu brátt vandamálið er skipta máli en einnig vistfræðilegir þættir eins og eðli þeirra samfélaga sem mótast við uppgræðslu og hversu sértækar aðgerðirnar eru í rúmi. Vægi mismunandi þátta getur verið misjafnt eftir stöðum. Þessir mælikvarðar þurfa að vera þekktir og það þarf að horfa á þá í samhengi til að geta tekið upplýsta afstöðu.

Fuglalíf er einn af þeim mælikvörðum sem nota má til að bera saman landbreytingar eins og uppgræðslu. Ef markmiðið er að styðja við sem flesta fugla þá er rétt að sá lúpínu. Þar er þéttleiki hæstur og munar mest um þúfutittling. Ef markmiðið er að styðja við tegundir sem standa illa á heimsvísu en hafa stóran hluta heimsstofns hér (svokallaðar ábyrgðartegundir) er vænlegra að endurheimta mólendi. En þá þarf einnig að halda mólendinu á hentugu framvindustigi fyrir þessar tegundir því annars hverfa þær er gróður hækkar. Þetta mynstur getur hentað vel fyrir bændur sem láta land sitt tímabundið undir uppgræðslu en vilja nýta aftur þegar landið þolir beit. Endurheimt mólendis er líklegri til að styðja við skuldbindingar Íslendinga á sviði náttúruverndar en illa hefur gengið að aðlaga landnotkun hér að alþjóðlegum samningum sem við höfum undirgengist.

Ekki þarf að fjölyrða um að lúpína er umdeild planta á Íslandi. Hún á fjölda aðdáenda enda er hún bæði falleg og dugleg landgræðslujurt. Á móti kemur að hún gengur á land sem öðrum er kært og ógnar sjaldgæfum búsvæðum. Umræða um ágæti lúpínu hefur verið einstrengingsleg og ólíkleg til að styðja nokkuð við farsæla stefnumótun. Með aukinni þekkingu og bættri umræðu má vonast til að fólk geti komið sér saman um hvar lúpína á heima og hvar ekki. Mikil þörf er á slíkri sátt því lúpínan er komin til að vera.

 

Enn fækkar blesgæsum

Blesgæsum sem koma við á Íslandi á leið milli Bretlandseyja og Grænlands heldur áfram að fækka (Fox o.fl. 2015). Heildarstofninn er nú kominn niður fyrir 20 þúsund fugla og hefur ekki verið svo lítill síðan 1985. Ástæður fækkunarinnar má rekja til varpstöðva á Grænlandi en þær snúa aftur á vetrarstöðvar haust hvert með afar fáa unga. Ástæðan er ekki fullkunn en gæti tengst bæði loftslagsbreytingum og nýlegu landnámi kanadagæsa á Grænlandi. Blesgæsin var friðuð fyrir veiðum á Íslandi árið 2006 til að við værum ekki að gera illt verra og um tíma leit út fyrir að það dygði til að stofninn hætti að minnka. Það tímabil stóð þó ekki lengi og nú eru þær aftur á niðurleið. Þrátt fyrir veiðibann eru íslenskir veiðimenn enn að skjóta um 1-2% stofnsins árlega (ust.is). Sú veiði helst nokkuð í hendur við gæsaveiði almennt svo líkur á að blesgæsir séu skotnar virðast aukast þegar menn eru komnir út að veiða, hvort sem þær eru skotnar í misgripum eða ekki. Blesgæsir hafa flestar viðkomu á Vesturlandi og Suðurlandi og þessi dreifing endurspeglast í veiðinni. Hér að neðan er mynd sem sýnir fjölda blesgæsa í Bretlandi en það er annað eins á Írlandi. Helstu vetursetustaðirnir eru í Wexford á Írlandi og eyjunni Islay í Skotlandi. 

blesur

1. Mynd. Breytingar á fjölda blesgæsa í Bretlandi milli 1982 og 2015. Þetta er um helmingur stofnsins en hinar hafa vetursetu á Írlandi. Örin (2006) sýnir hvenær veiðibann hófst á Íslandi (Fox o.fl. 2015).

Hér má er meira um málið, m.a. nýjasta talningaskýrslan í fullri lengd:
http://greenlandwhitefront.org/

Heimild: Fox, A., Francis, I, Norriss, D. & Walsh, A. 2015. Report of the 2014/2015 International census of Greenland White-fronted Geese. Greenland White-fronted Goose study. Final Report. tinyurl: https://t.co/aaogtiVuBH

Bogga og spóinn

Sumurin 2009-2011 vann Borgný Katrínardóttir að meistaraverkefni sínu við Háskóla Íslands, en verkefnið fjallaði um vistfræði spóa á Suðurlandi. Ég ætlaði að vera búinn að skrifa pistil um þetta merkilega verkefni fyrir löngu en það tafðist og það urðu aðrir á undan sem var bara gott. Fjallað var um verkefnið á heimasíðu breska Fuglafræðifélagsins (http://www.bou.org.uk/icelandic-wimbrel/) í haust og nýlega í morgunblaðinu (http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/10/22/eldgosin_trufludu_varp_spoans/). En það er rétt að gera þessu aðeins skil.

IMG_18092015_101536

Mælingar sem gerðar voru fyrir meira en áratug staðfestu að spóar sækja víða í hálfgróin búsvæði. Þessir staðir eru oft meðfram ám, þar sem flóð hafa raskað gróðurframvindu og skiptast á sandur, pollar og gróðurflesjur, gjarnan með hrossanál og víðirunnum á stangli. Spóar verpa mun þéttar á slíkum stöðum heldur en á ýmsum öðrum þar sem spóar verpa líka í talsverðum mæli, t.d. í mólendi og graslendi. Sem dæmi um staði sem uppfylla þessi skilyrði má t.d. nefna Markarfljótsaura, ræmur meðfram Þjórsá og Hvítá á Suðurlandi, Úthérað og sanda við Öxarfjörð. Þessir staðir og fleiri hliðstæðir á Íslandi eru konungsríki spóans og þeir verpa hvergi þéttar í heiminum. Markmið með verkefni Borgnýjar var að skýra af hverju spóar sækja svona mikið í þessi svæði. Líklegt þótti að munur á fæðuframboði og varpárangri myndi skýra mun á þéttleika spóa milli hálfgróinna áreyra og annarra svæði en fæðuframboð hefur áhrif á afkomu og ungir vaðfuglar snúa gjarnan aftur sem varpfuglar á æskustöðvar sínar.  Þannig ættu spóar að verpa í hærri þéttleika þar sem fleiri ungar komast upp að jafnaði. Verkefnið var því sett upp til að bera saman fæðuframboð og varpárangur milli þessara kjörsvæða spóa og annarra og átti að ganga snurðulaust fyrir sig. En eins og John Lennon sagði „life is what happens to you when you are busy making other plans“…

IMG_08092015_100432

Eldgos trufla mælingar. Verkefnið fór fram á Suðurlandi á nokkrum svæðum frá Fljótshlíð vestur í Ölfus. Allt gekk vel fyrir sig sumarið 2009 og Borgný vann af kappi við gagnaöflun. En svo gaus Eyjafjallajökull vorið 2010. Og Grímsvötn 2011. Þetta truflaði mælingar á fæðuframboði verulega. Spóinn étur ýmsar pöddur sem eru á ferðinni á og við yfirborð. Til að meta hvað er mikið af þeim og bera saman milli svæða eru notaðar svokallaðar fallgildrur. Fallgildrur eru í raun skyrdollur sem eru grafnar niður þannig að efri brúnin ber við yfirborð jarðar. Smádýrin hrapa svo niður í þær og lenda í þunnu lagi af frostlegi sem er notaður til að varðveita dýrin fram að tæmingu. Í stuttu máli má segja að gildrurnar fylltust meira og minna af ösku en það sem kom í þær af smádýrum var afskaplega lítið. Lítill munur fannst á fæðuframboði milli búsvæða en talsverður munur var á árum  og seinna eldgosaárið (2011) var verst. Ekki virtust spóapör á hálfgrónum áreyrum heldur líklegri til að koma upp ungum heldur en pör á öðrum svæðum (sem einkum voru mólendissvæði). En þessi rannsókn staðfesti hins vegar fyrri mælingar á varpþéttleika, þéttleiki var mun hærri á hálfgrónum áreyrum heldur en á öðrum svæðum. Þetta þýddi að þó að varpárangur væri svipaður (líkur á að par komi upp ungum) var mun meira af fuglum með unga á áreyrasvæðunum heldur en á öðrum svæðum. Þ.e. ungaframleiðsla á flatareiningu (en ekki á par) var mun meiri á áreyrasvæðum en í mólendi.

En spurningin sem lagt var upp með stendur ennþá: af hverju verpa spóar í hærri þéttleika á hálfgrónum áreyrum heldur en á öðrum varpbúsvæðum? Sækni fuglategunda í ákveðin búsvæði mótast af náttúrlegu vali eins og aðrir andlegir og líkamlegir eiginleikar. Það þýðir (yfirleitt) að þeir fuglar sem sækja í þau svæði þar sem afkoma (lífslíkur og/eða framleiðsla) er best komast helst af og þeir eiginleikar að sækja í tiltekið búsvæði erfast því til fleiri afkomenda og verða algengari í stofninum. Þetta hlýtur að eiga við um spóann og hálfgrónu áreyrarnar líka þó að ekki hafi tekist að mæla það með óyggjandi hætti í þessari atrennu. Undirritaður duflaði líka við spóann á ofanverðri síðustu öld og þær athuganir leystu heldur ekki málið. Líklegasta skýringin á þessu greinilega búsvæðavali spóans er að það sé í raun munur á afkomu spóa milli þessara búsvæða, það þurfi bara meira átak til að mæla muninn. Spóinn er langlífur fugl sem getur orpið í mörg ár. Það þarf líklega bara smá mun  á varpárangri milli búsvæða yfir margra ára tímabil til að spóar fari að þróa með sér skoðanir á hvaða búsvæði eru kjörlendi og hver síður. Ef munurinn er lítill þá þarf margra ára rannsóknir til að mæla hann sem eru langt utan við ramma einstakra námsverkefna. Þetta er gömul saga og ný, það er oftast mun erfiðara að svara spurningum um náttúruna heldur en að spyrja þeirra. Það er erfitt að stunda tilraunavísindi (sem gagnast best til að aðgreina áhrifaþætti) á vistfræðilegum kerfum á stórum svæðum og því sitjum við uppi með að afla grófra upplýsinga um tengsl þátta og reyna að túlka þær af varfærni.

cropped-spc3b3.jpg

Eldgos veittu tækifæri. Ísland er eitt eldvirkasta svæði í heimi og  tengsl líffræði og jarðfræði eru óvíða skýrari en hér. Þrátt fyrir það er lítið vitað um bein áhrif eldvirkni á dýralíf enda er erfitt að skipuleggja rannsóknir til að fást við óregluleg fyrirbæri eins og eldgos. En rannsóknin hennar Borgnýjar hitti vel á. Hún byrjaði ári fyrir Eyjafjallajökulsgosið og hún tók til svæða sem voru víða um Suðurland, mislangt frá upptökum gossins. Mikill munur var á varpárangri spóa eftir því hversu langt frá Eyjafjallajökli rannsóknasvæðin voru. Næst upptökunum (á Markarfljótsaurum) var varpárangur verstur en batnaði eftir því sem fjær dró. Þessi munur var enn skýrari sumarið 2011 þegar aska frá Grímsvötnum bættist við öskuna frá Eyjafjallajökli heldur en 2010. Eldgosið hafði því talsverð neikvæð skammtímaáhrif á spóavarp, og meiri áhrif þar sem var meiri aska. Líkleg meginskýring er að askan hafi neikvæð áhrif á fæðuframboð en þekkt er úr rannsóknum erlendis að aska stráfellir skordýr með því að stífla á þeim loftgötin og þurrka þau upp. Smádýrastofnar jafna sig þó líklega fljótlega. Væntanlega fara þessi skammtímaáhrif mest eftir stærð öskugosa og dreifingu og magni ösku.

En nýlega hefur komið í ljós að áhrif eldvirkninnar eru líka jákvæð fyrir mófugla. Dreifing og magn ryks (oft kallað moldrok í daglegu tali) í loftinu er nátengt gosbeltunum. Uppblásturinn er mestur á eldvirku svæðunum, af illa förnum afréttum, við hopandi jökla og í tengslum við eldgos. Þar sem meira ryk fellur á gróið land, þar eru fleiri mófuglar. Af þessum völdum er (að jafnaði) meira af mófuglum á grónu landi á Suðurlandi og Norðurlandi heldur en á Austurlandi og Vesturlandi. Hér er líklega um eins konar áburðaráhrif að ræða þar sem rykið hefur áhrif á jarðvegseiginleika sem bæta fæðuframboð fyrir mófugla.

En af spóanum er það að frétta að þeir virðast hafa rétt úr kútnum á Suðurlandi síðan á gosárunum og varpið hefur gengið prýðilega síðustu ár. En það eru blikur á lofti. Rannsóknir Borgnýar staðfestu eldri mælingar og sýna að spói verpur í langhæstum þéttleika á hálfgrónum svæðum af ákveðnu tagi sem oftast (en ekki alltaf) eru meðfram ám. Þeir staðir sem uppfylla þessi skilyrði eru bara lítil frímerki og líklega verpur allt að 10% af spóum heimsins á þessum svæðum á Íslandi eða um fjórðungur íslenska stofnsins. Þau eru óðum að hverfa vegna þess að við leyfum ekki ám að flæmast á eyrum og lúpína lokar víða svæðum meðfram ám sem eru lítt gróin frá náttúrunnar hendi. Einnig hefur beitarmynstur breyst en beit virðist víða viðhalda hentugum mófuglasvæðum sem annars hverfa í gróður. Spói verpur þó víða utan þessara svæða og vonandi fáum við að njóta hans lengi enn þó bestu svæðin spillist nú hratt.

Að lokum er hér myndband úr þáttunum Fjársjóður framtíðar sem fjalla um rannsóknir við Háskóla Íslands og sýnir Boggu og spóann í sumarlandinu.

 

Heimildir

Katrinardottir, B., Alves, J.A., Sigurjonsdottir, H., Hersteinsson, P. & Gunnarsson, T.G. 2015. The effects of habitat type and volcanic eruptions on the breeding demography of Icelandic Whimbrels Numenius phaeopus. PLOS One. DOI: 10.1371/journal.pone.0131395

Gunnarsson, T.G., Arnalds, O., Appleton, G., Mendés, V. & Gill, J.A. 2015. Ecosystem recharge by volcanic dust drives broad-scale variation in bird abundance. Ecology and Evolution. DOI: 10.1002/ece3.1523

 

 

Er best að vera grágæs fyrir sunnan?

Eitt af því sem getur haft mikil áhrif á viðgang dýrastofna er lega búsvæða þeirra. Ýmis vistfræðileg mynstur svo sem líkamsbygging dýra, þéttleiki stofna og fjölbreytni dýralífs sýna oft tengsl við breiddargráðu og hæð yfir sjó en þessir þættir eru nátengdir loftslagi. Almennt verður lífsbaráttan harðari því fjær sem dregur frá miðbaug eða hærra í landi þó á því séu ýmsar undantekningar. Erfiðari skilyrði geta birst í minni viðkomu og/eða lægri lífslíkum.

Ísland er fremur norðarlega á hnettinum, milli 63. og 67. gráðu. Munur á legu milli Suðurlands og Norðurlands getur skipt máli þegar kemur að ytri skilyrðum fyrir dýr. En aðrir þættir, eins og landslag og hafstraumar hafa ekki síður áhrif á loftslag á Íslandi sem er fremur milt miðað við hnattstöðu. Þannig er að jafnaði mildast á láglendi um sunnan- og vestanvert landið en kaldara fyrir norðan og austan. Vel er þekkt að þessi hóflegi breytileiki í loftslagi kemur víða fram í náttúrunni. Spretta grasa og heyfengur eru til dæmis nátengd hitafari og eins eru ýmsar pöddur fljótari til þar sem hlýrra er á vorin. Þá eru vísbendingar um að hlýnandi loftslag sé farið að hafa áhrif á stofna fiska og fugla. Lítið hefur þó verið um rannsóknir sem leitast beinlínis við að skýra landshlutabundinn mun í áhrifum loftslags á dýrastofna.

Grágæs er útbreiddur varpfugl á láglendi um allt land. Hún er jafnframt einhver vinsælasta veiðibráð Íslendinga. Veiðiálag á stofninn virðist mjög mikið og líklega er um fjórðungur til þriðjungur stofnsins skotinn árlega. Þrátt fyrir þetta virðist stofninn bæta sér upp þessi miklu afföll og hefur verið stöðugur síðustu ár. Oft er erfitt að vita hversu mikil afföll stofnar þola nema láta reyna á það með veiðum. Undantekningalítið er það sú leið sem er farin enda byggja veiðar víðast á gömlum venjum. Í nútímanum ætti þó að kappkosta að afla grunnupplýsinga um lýðfræði* og búsvæðanotkun stofna til að hafa einhver stjórntæki til að stuðla að sjálfbærum veiðum. Misjafnt er hvaða lágmarksþekking er nauðsynleg en auk breytinga á stofnstærð  má gera ráð fyrir að upplýsingar um dánartíðni og framleiðslu séu æskilegar. Þrátt fyrir miklar veiðar og þá ábyrgð sem af þeim hlýst er vistfræði íslenska grágæsastofnsins fremur illa þekkt. Þær rannsóknir sem hafa verið stundaðar á stofninum eru einkum frá vetrarstöðvum á Bretlandseyjum. Þar eru t.d. flestar íslenskar grágæsir taldar á veturna sem grunnurinn að árlegu mati á stofnstærð.

SONY DSC

1. mynd. Helgi Guðjónsson við mælingar á gæsahreiðrum í Ytri Rangá í Rangárvallasýslu.

Helgi Guðjónsson líffræðingur og félagar birtu fyrir stuttu grein um varpvistfræði grágæsa í alþjóðlegu fagtímariti en greinin byggði á meistaraverkefni sem Helgi lauk vorið 2014. Verkefnið miðaði að því að meta landshlutamun á skilyrðum fyrir grágæsavarp. Þó grágæsir séu áberandi fuglar kostar heilmikla fyrirhöfn að rannsaka þær í varpi. Þær verpa þéttast á óaðgengilegum stöðum, í eyjum og hólmum í stórám og í sjó. Stór hluti stofnsins virðist þó verpa dreift  og erfitt er að finna þau hreiður nema með mikilli fyrirhöfn. Gagnaöflun kostar því talsverðar göngur, volk í vöðlum, bátsferðir og sundferðir eftir atvikum. Helgi er vöðluvanur og lét þetta ekki stöðva sig og naut einnig samvinnu góðra félaga við bátsferðir og gagnaöflun.

Grágæsavörp víða um land voru heimsótt sumrin 2012 og 2013. Egg voru talin og mæld og varptími metinn. Stærð og fjöldi eggja gefa vísbendingu um ástand fugla og skilyrði til varps en gæsir verpa að jafnaði fleiri og stærri eggjum ef þær eru í góðu ástandi. Varptími var metinn með því að skoða hvernig egg fljóta í vatni. Egg léttast vegna útgufunar þegar líður á útungun og með því að meta flot þeirra í vatni má reikna til baka hvenær þeim var orpið. Gæsir verpa fyrr að vorinu ef veðurfar er hagstætt, líkt og fleiri fuglar, og því gefur varptími vísbendingu um skilyrði. Þá voru gæsir og ungar þeirra talin á sömu slóðum síðsumars. Ekki var endilega búist við að mikill munur væri á þessum þáttum milli landshluta enda grágæsir stórir og harðgerir fuglar. Annað kom þó á daginn.

Grg-urpt-start

2. mynd. Munur á eggjafjölda í hreiðrum (a) og á upphafi álegu (dagar frá áramótum á y-ás) (b) milli landshluta árin 2012 og 2013.

Landshlutamunur var einna mestur á varptíma. Grágæsir hófu að jafnaði varp um 30. apríl á Suðurlandi og Vesturlandi, um 10. maí á Norðurlandi og um 20. maí á Austurlandi. Þessi þriggja vikna munur er verulegur og gæti skipt  máli varðandi þroska unga að hausti og lífslíkur. Vert væri að kanna það frekar. Nokkur munur var einnig á fjölda eggja í hreiðrum. Meðalfjöldi eggja í hreiðrum á Suðurlandi og Vesturlandi slagaði í fimm, var um fjögur egg á Austurlandi en Norðurland var mitt á milli.

Grg-urpt

3. mynd. Tengsl milli meðalhita í apríl og fjölda eggja í grágæsahreiðrum á Íslandi og í nokkrum öðrum löndum.

Þessi munur á eggjafjölda er nátengdur hitastigi og fellur munur milli landssvæða á Íslandi vel inn í rannsóknir á eggjafjölda grágæsa annars staðar (3. mynd). Meðalstærð systkinahópa þegar leið á sumarið var á bilinu þrír til fimm, minnst á Austurlandi  en mest á Norðurlandi. Af mældum þáttum var áramunur einna mestur á fjölda unga.

Þessar niðurstöður sýna glögglega að það er talsverður landshlutamunur á skilyrðum fyrir grágæsavarp. Að jafnaði verpa grágæsir á hlýrri láglendissvæðum fyrr, fleiri eggjum og þar sem kaldast var á Austurlandi voru gæsir  einnig að jafnaði með fæsta unga. Aftur á móti er grágæsavarp útbreiddara á Austurlandi og Norðausturlandi sem endurspeglar líklega meira framboð af hentugum búsvæðum á þeim svæðum. Það virðist því hagstæðast að vera grágæs á hlýrri láglendissvæðum landsins en það er aftur meira af þeim á kaldari svæðum. Mjög líklegt er að góður varpárangur eigi stóran þátt í að halda uppi svo miklum grágæsaveiðum sem reyndin er. Til að stuðla að áframhaldandi viðgangi stofnsins og nýtingu ef vill, er nærtækast að vernda varpbúsvæði. Það gerist helst með því að vernda votlendi af ýmsu tagi og takmarka framkvæmdir nálægt vatni þar sem grágæsir verpa. Sveitarfélög fara með skipulagsvald og bera mikla ábyrgð á náttúruvernd.

Þó Ísland sé ekki stórt og loftslag hér sé fremur milt, kemur landshlutamunur á skilyrðum greinilega fram í afkomu grágæsa á láglendi. Gæsir eru með okkar stærstu og seigustu landdýrum og þessi breytileiki sem kemur fram í varpi þeirra gefur til kynna að hliðstæðan landshlutamun sé víða að finna hjá íslenskum dýrum sem við vitum enn minna um.

 

Heimild:

Helgi Guðjónsson, Jón Einar Jónsson, Halldór Walter Stefánsson, Aðalsteinn Örn Snæþórsson og Tómas Grétar Gunnarsson 2015. Annual and large-scale variation in breeding output of Greylag geese (Anser anser) in Iceland. Bird Study, in press.

 

* Lýðfræði (e. demography) er tölfræði stofna og fæst m.a. við fæðinga- og dánartíðni, inn- og útflutning, dreifingu stofna, aldurssamsetningu o.fl.