Vernd og vöktun mófugla – Ráðstefna Fuglaverndar

Fuglaverndarfélag Íslands stóð fyrir ráðstefnu um vernd og vöktun mófugla 29. nóvember. Þar voru haldin þrenns konar erindi: um stöðu stofna og vöktun, um þær hættur sem stafa að búsvæðum mófugla og um þau ferli sem geta breytt landnotkun í fækkun í stofnum. Á Íslandi eru ofurstórir mófuglastofnar og mófuglar því afar áberandi á tegundafábreyttu landinu. Hvert mannsbarn þekkir angurvært bí lóunnar, hnegg hrossagauksins og vell spóans. Hljóð mófuglanna eru samofin þjóðarsálinni og hreyfa við vorinu sem við göngum flest með í maganum. Þessi tenging skýrir t.d. af hverju virðist vænlegt að nota mófuglahljóð mikið í auglýsingum.

Spói

Konungur fuglanna?

Vegna þess að hér eru afar stórir mófuglastofnar, bera Íslendingar sérstaka ábyrgð á viðgangi þeirra. Flestir mófuglar eru farfuglar sem virða ekki landamæri. Þeir verða því ekki verndaðir nema í samstarfi þjóða og Íslendingar eru aðilar að nokkrum samningum sem fela í sér ábyrgð á mófuglastofnum. Þrátt fyrir þessa ábyrgð hefur gengið afar illa að koma á nauðsynlegri vöktun á mófuglum. Stjórnvöld ættu að tryggja að stofnanir geti staðið undir lagalegri skyldu við vöktun náttúrunnar. Slík vöktun mælir ekki einungis ástand mófuglastofna heldur er líka mælikvarði á áhrif landnotkunar og landslagsbreytinga. Mófuglar eru nefnilega mjög víða og fjöldi þeirra og dreifing eru nátengd landnotkun. En þessi mikla dreifing skapar líka vandræði þegar kemur að vernd. Þegar fuglar eru hnappdreifðir (eins og t.d. endur á Mývatni eða sjófuglar í bjargi) er hægt að stofna afmörkuð verndarsvæði sem ná yfir stóran hluta stofna. En hvernig verndum við dreifðar lífverur? Það er hægt að stofna verndarsvæði á lykilstöðum, t.d. í votlendi hvað varðar mófugla. Það gerir mikið gagn og nauðsynlegt er að fjölga verndarsvæðum og efla verulega þau sem eru fyrir ef við ætlum að ná árangri. En til að vernda dreifða stofna, þarf einnig að taka tillit til þeirra við aðra landnotkun. Það er hægt að gera með ýmsu móti og varðar bæði stjórnsýslu skipulagsmála og þá sem nota landið.

Fundur Fuglaverndar sem nefndur var hér í upphafi samþykkti ályktun sem finna má á síðu Fuglaverndar. 

 

 

Sauðfé étur egg og unga

Við Borgný Katrínardóttir birtum þennan pistil í Bændablaðinu í morgun. Hér kemur hann aftur en með fleiri og betri myndum (smellið á til að stækka, fleiri myndir neðst).

Sauðfé étur egg og unga

Hr4

Hér reynir spóinn að mótmæla af hreiðrinu. En Golsi veit hvað hann vill.

Færst  hefur í vöxt að rannsakendur, veiðimenn og fleiri notfæri sér sjálfvirkar myndavélar til að fylgjast með atburðum annars er erfitt að verða vitni að. Slíkar myndavélar eru oft búnar hreyfi- og/eða hitaskynjurum, jafnvel farsímabúnaði og eru á viðráðanlegu verði.

Sumrin 2010-2013 voru myndavélar settar upp við mófuglahreiður á þremur bæjum í Rangárvallasýslu. Myndavélarnar tóku myndir við hreyfingu og skrásettu alla sem heimsóttu hreiðrin. Þannig mátti greina á öruggan hátt hverjir rændu hreiður. Nokkuð kom á óvart að sauðfé reyndist afkastamesti eggjaræninginn á tveimur af bæjunum þremur og var einnig staðið að verki á þeim þriðja (Borgný Katrínardóttir 2012, Aníta Ólöf Jónsdóttir, óbirt gögn). Tvisvar sinnum fóru hestar einnig í hreiður og skemmdu egg.

Þessar athuganir eru ekki einsdæmi. Í grein í fuglatímaritinu Blika árið 1992 lýsir höfundur því þegar hann verður ítrekað vitni að því að kindur éta egg úr hreiðrum fugla í Engidal í S-Þingeyjarsýslu. Þau hreiður áttu heiðlóa, grafönd og rjúpa. Í öðrum tilfellum sá höfundur kindur hlaupa til og leita án árangurs þegar fuglar flugu upp en það voru hrossagaukur og þúfutittlingur (Kristlaug Pálsdóttir 1992).

Hr2

Sú efsta í þessari seríu er í uppáhaldi. Sú er tekin um miðjan dag. Þær eru enn að dunda sér við hreiðrið um kvöldið.

Upp úr miðri síðustu öld komst sauðfé upp á lagið með að éta hausinn af kríuungum á Flatey á Skjálfanda og urðu að minnsta kosti nokkrir tugir kindum að bráð (Sigurður Gunnarsson 2000). Hliðstæð dæmi eru til frá eyjunni Foula við Skotland þar sem sauðfé át hluta af a.m.k. 680 kríuungum og 10 kjóaungum milli 1973 og 1980. Yfirleitt voru það útlimir sem voru étnir en í sumum tilfellum höfuð (Furness 1988).

Egg og ungar eru næringarrík fæða og ekki þarf að koma á óvart að sauðfé sæki í slíkt. Grasbítar eru til dæmis sólgnir í prótein- og kalkríka fæðu eins og síld ef hún er í boði. Hvort að afrán sauðfjár á eggjum og ungum fugla skiptir máli fyrir afkomu fuglastofna er óþekkt en forvitnilegt væri að kanna betur umfang og útbreiðslu þessa atferlis. Á Íslandi eru afar stórir mófuglastofnar sem þrífast vel á opnu landi í úthaga. Þessu landslagi er viðhaldið með beit og því má segja að hófleg beit sé einnig forsenda fyrir blómlegu mófuglalífi.

 

Heimildir
Borgný Katrínardóttir 2012, The importance of Icelandic riverplains as breeding habitats for Whimbrels Numenius phaeopus, Meistararitgerð. Líf- og umhverfisvísindadeild. Háskóli Íslands. 50 bls.

Furness, R.W. 1988. The predation of Tern chicks by sheep. Bird Study 35. Bls. 199-202.

Kristlaug Pálsdóttir 1992. Eggjaát hjá kindum. Bliki 12. Bls. 55-56.

Sigurður Gunnarsson 2000. Höfuðlausir kríuungar. Bliki 20: 65.

Og hér koma fleiri myndir.

Hr5

Fjölskyldusport.

 

 

 

 

 

 

 

Hr1

Hestar fara stundum í hreiður líka.

 

Hr3

Hér er merktur spói að stumra yfir hreiðri sem var rænt tveimur tímum áður (neðri mynd). Þeir heimsækja oft hreiðrið í meira en sólarhring eftir að það er rænt.

 

Náttúruvernd í úthaga

Í nýlegri úttekt Efnahags- og framfarastofnunar Evrópu (OECD) á umhverfismálum á Íslandi kemur fram að grunnrannsóknir og vöktun á íslenskri náttúru eru enn í hálfgerðum molum þrátt fyrir framfarir á síðustu árum. Eitt af brýnustu viðfangsefnum samtímans er að samræma nýtingu landsins og nauðsynlega náttúruvernd. Þá skiptir máli að hafa haldgóðar upplýsingar um eðli og dreifingu náttúruverðmæta.

Rýrt mólendi

Rýrt mólendi á Rangárvöllum. Spói flýgur yfir. Hekla í baksýn. Mynd: TGG.

Breytingar á landnotkun á Íslandi hafa verið hraðar á síðustu árum. Líklega erum við Evrópumeistarar í hraða landbreytinga á þessari öld og Sunnlendingar afkastamestir (Elke Wald 2012). Við þróun landnotkunar er mikilvægt að fyrir liggi upplýsingar um verðmæti mismunandi landgerða. Þá hafa þeir sem fara með skipulagsmál einhver tæki til að forgangsraða og skipuleggja nýtingu og vernd. Fuglalíf er einn mælikvarði á gildi lands. Fuglar eru ofarlega í fæðukeðjum og byggja tilvist sína á ýmsum þáttum neðar í keðjunni, s.s. frjósemi jarðvegs og smádýralífi. Þar sem er meira af fuglum er land að jafnaði frjósamara, hefur því meira gildi fyrir náttúruvernd og oft aðra nýtingu líka. En það er með fuglalíf eins og marga aðra þætti í náttúru landsins, grunnupplýsingar um fjölda, dreifingu og fjöldabreytingar eru af skornum skammti. Eflaust eru fjölbreyttar ástæður þar að baki en mannfæð og skilningsleysi á mikilvægi náttúruþekkingar koma væntanlega við sögu.

Það þarf hvorki að vera mannfrekt né seinlegt að afla þekkingar um náttúrufar. Til dæmis má gera mun meira af því að afla afmarkaðra upplýsinga á vettvangi og yfirfæra þær á stærri svæði með landfræðilegum gögnum. Með landfræðilegum gögnum er t.d. átt við gróðurkort, jarðvegskort og önnur kerfi sem sýna dreifingu yfirborðseiginleika á mælikvarða landslags. Þá fæst fljótlegri og ódýrari mynd af þeim þáttum sem eru til skoðunar heldur en með vettvangsmælingum einum.

Kort sem sýnir þéttleika mófugla í fimm búsvæðum á Suðurlandi (Árnes- og Rangárvallasýsla undir 200 m y.s.). Meðalfjöldi mófugla á km2 er í sviga á eftir hverju búsvæði. Lilja Jóhannesdóttir o.fl. 2014.

Fyrir stuttu birtist grein í bresku vísindariti sem byggði á viðamiklu meistaraverkefni Lilju Jóhannesdóttur. Verkið fólst í að meta mikilvægi mismunandi gerða úthaga fyrir fuglalíf og það var unnið við Landbúnaðarháskóla Íslands í samstarfi við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Suðurlandi. Lilja taldi mófugla víða á Suðurlandi 2012-2013. Talningarnar voru gerðar í fimm algengustu gerðum úthaga þar sem landupplýsingagrunnurinn Nytjaland sem rekinn er af Landbúnaðarháskóla Íslands var notaður til að flokka búsvæði. Búsvæðin voru rýrt mólendi, ríkt mólendi, graslendi, hálfdeigja og votlendi. Líklegt er að aukin umsvif manna á láglendi, t.d. landbúnaður, íbúðarhús, skógrækt og frístundabyggð lendi mikið á þessum víðáttumiklu grónu landgerðum og því var eðlilegt að afmarka verkefnið við þau. Talningarstaðir voru 200, eða 40 í hverju búsvæði. Með því að nota Nytjalandsgrunninn voru niðurstöður af þessum 200 blettum yfirfærðar á Suðurland allt.

Verkefnið leiddi í ljós að í öllum búsvæðunum fimm er ofurþéttleiki mófugla miðað við það sem gengur og gerist í öðrum löndum. Hæstur var þéttleikinn í votlendi og hálfdeigju eða 620-640 mófuglar á ferkílómetra að meðaltali. Næst komu ríkt mólendi og graslendi með um 460-480 mófugla á km². Rýrt mólendi rak lestina, en þó með um 275 mófugla á km² sem í flestum löndum myndi þykja ástæða til sérstakra verndaraðgerða. Yfir 95% af öllum töldum fuglum tilheyrðu aðeins átta tegundum. Þetta voru vaðfuglarnir tjaldur, heiðlóa, spói, jaðrakan, stelkur, hrossagaukur og lóuþræll ásamt þúfutittlingi sem er spörfugl. Þúfutittlingur var raunar algengari en hinar tegundirnar til samans. Í alþjóðlegum samanburði er fjölbreytni tegunda lítil en margir einstaklingar eru af hverri tegund.

Stofnar mófugla í búsvæðunum fimm á Suðurlandi voru stórir. Fjöldi þúfutittlinga var t.d. um 700 þúsund og spóar voru um 118 þúsund. Hlutfall Evrópustofna tegundanna í þessum afmörkuðu búsvæðum á Suðurlandi var á bilinu 2-20% sem er mjög mikið miðað við að Ísland allt er aðeins um 1% af flatarmáli Evrópu. Megnið af heimsstofnum þessara tegunda verpur í Evrópu. Vaðfuglum (sem eru uppistaðan í þeim hópi sem nefndur er mófuglar í daglegu tali) fer fækkandi hnattrænt sem eykur enn á mikilvægi Íslands. Niðurstöðurnar undirstrika gildi votlendis fyrir fugla en sýna einnig að aðrar gerðir úthaga eru góðar fyrir mófugla. Nokkur munur var á samsetningu tegunda eftir landgerðum og t.d. má nefna að heiðlóa var algengust í rýru mólendi sem var það búsvæði þar sem heildarþéttleiki fugla var minnstur.

Votlendi

Votlendi eins og það gerist mest og best á Íslandi. Safamýri í Rangárvallasýslu. Mynd: TGG

 

Niðurstöður sýna vel að gróinn íslenskur úthagi er fyrirheitna land mófugla. Þéttleiki mófugla er hár á heimsmælikvarða í öllum þeim búsvæðum sem skoðuð voru. Raunar virðist erfitt að herja mikið á íslenska úthagann án þess að það komi niður á heimsstofnum okkar algengari mófuglategunda. Blautari landgerðirnar, votlendi og hálfdeigja, voru þó með flesta fugla og þeir sem vilja lágmarka áhrif landnotkunar sinnar á mófugla ættu að huga sérstaklega að þessum búsvæðum.

Heimildir

Lilja Jóhannesdóttir, Ólafur Arnalds, Sigmundur Brink og Tómas Grétar Gunnarsson 2014. Identifying important bird habitats in a sub-arctic area undergoing rapid land-use change. Bird Study 61. http://dx.doi.org/10.1080/00063657.2014.962481

Elke Wald 2012. Land-use Development in South Iceland 1900-2010. Meistaritgerð við Háskóla Íslands. Slóð: http://hdl.handle.net/1946/10804