Litmerkingar á fuglum

Þeir sem eru áhugasamir um fugla rekast öðru hverju á fugla með litskrúðug merki. Oft eru þetta samsetningar mismunandi lita (1. mynd) eða merki með áletrun (2. mynd). Tilgangur slíkra merkinga er að auðkenna einstaklinginn á nógu áberandi hátt til að þekkja megi hann á  færi. Hefðbundnar fuglamerkingar notast við málmmerki (oftast stál á fuglum sem lifa á og við sjó og ál á þurrlendisfuglum) með hlaupandi númeri og heimilisfangi og litmerktir fuglar bera líka málmmerki. Erfitt er að lesa á málmmerkin nema ná fuglinum aftur sem felur í sér verulegt óhagræði, bæði fyrir fuglinn og rannsakandann.

1. mynd. Litmerktur tjaldur. Gulur yfir hvítum á vinstri og grænt flagg yfir svörtum á hægri. Hann ber einnig stálmerki ofan liðamóta á vinstri.

Í hverju landi er ábyrgðaraðili sem hefur réttindi til að standa fyrir fuglamerkingum og úthlutar málmmerkjum. Á Íslandi er það Náttúrufræðistofnun Íslands (NÍ) sem má ein láta merkja fugla samvæmt lögum nr. 60 frá 1992 og þeir sem merkja fugla þurfa leyfi NÍ. Nánari upplýsingar um þetta hlutverk NÍ má finna hér. Þá færist í vöxt að fuglar séu merktir með rafeindabúnaði en hann er yfirleitt það dýr að bara er hægt að fylgjast með fáum einstaklingum eða hefur takmarkaða nákvæmni sem nýtist helst til að fylgjast með ferðalögum yfir mjög stór svæði eins og lesa má um í þessum pistli um Flug spóans.

2. mynd. Litmerkt álft. Hún ber málmmerki á vinstri fæti og litmerki með áletrunninni YFR á hægri fæti. Hún var merkt á Bretlandseyjum. Auðveldara er að koma merkjum með sýnilegri áletrun fyrir á stærri fuglum en á litlum fuglum eru oftar litmerki án áletrunar.

Málmmerki eða litmerki? 

Í raun er enginn eðlismunur á tilgangi merkinga með málmmerkjum og litmerkingum. Í báðum tilfellum er markmiðið að aukenna einstakling svo að hægt sé að afla upplýsinga um hann. Munurinn felst fyrst og fremst í því að litmerktir fuglar eru miklu líklegri til að sjást aftur. Gott dæmi eru íslenskir jaðrakanar. Undirritaður hóf litmerkingar á jaðrakönum ásamt félögum um síðustu aldamót (3. mynd). Fram að því höfðu merkingar með hefðbundnum stálmerkjum sem stundaðar höfðu verið í um hálfa öld skilað fáeinum einstaklingum í V-Evrópu og einhver mynd var komin á hvar þeir halda sig á veturna. Eftir að litmerkingar hófust, hefur álestrum af íslenskum jaðrakönum á vetrarstöðvum fjölgað í um 30 þúsund og líf þeirra utan varptíma er nú tiltölulega vel þekkt. Jaðrakan skilar reyndar óvenju mörgum álestrum því að vetrarútbreiðsla þeirra á þéttbýlum strandsvæðum V-Evrópu skarast við einhvern mesta þéttleika fuglaskoðara í heimi en þeir hafa augun hjá sér og senda okkur álestra. Álestrar áhugasamra á litmerktum jaðrakönum hafa skilað fjölbreyttum ávinningi og miklum upplýsingum og skemmtilegt yfirlit yfir þetta samstarf má finna á Wadertales bloggi Graham Appleton í pistli sem heitir „Godwits and godwiteers„.

3. mynd. Litmerktur jaðrakan. Þessi verpur við Laugardæli í Flóa en hefur vetusetu í Portúgal þar sem hann var merktur.

Tilgangur fuglamerkinga

Ef við skautum framhjá skýringum sem byggja á almennu gildi rannsókna fyrir mannlífið og mikilvægi þekkingar á náttúrunni þá er ljóst að fuglamerkingar hafa fjölbreytt gildi fyrir fuglarannsóknir. Raunar væri erfitt að stunda flestar gerðir fuglarannsókna án fuglamerkinga. Lykilatriðið er þetta: fuglamerkingar eru leið til að fylgjast með einstaklingum og stofnar eru byggðir upp af einstaklingum. Það er því sama hvort við erum að rannsaka einstaklinga (t.d. að pæla í atferli) eða stofna, við þurfum alltaf að geta rakið örlög einstaklinga. Stofn fugla (eða annarra lífvera) er skilgreindur hópur á tilteknu svæði. Til dæmis varpstofn heiðlóu á Íslandi, stofn dílaskarfa við Breiðafjörð eða stofn grágæsa í Evrópu. Stærð og útbreiðsla stofna ræðst af því hve margir einstaklingar koma inn í stofninn (verða til eða flytja inn) og hve margir hverfa úr stofninum (deyja eða flytja út). Til að meta alla þessa þætti þarf að fylgjast með einstaklingum. Því fleiri einstaklingum sem hægt er að fylgjast með því betri verða gögnin og niðurstöður áreiðanlegri. Þetta er ástæðan fyrir því að fuglamerkingar eru nauðsynlegar. Það sama á auðvitað við um rannsóknir á öðrum dýrum, þau eru merkt með fjölbreyttum hætti til að fylgjast með lífi þeirra svo draga megi ályktanir um stofninn. Smádýr eru oft merkt með málningu (t.d. mismunandi mynstri af blettum), stór dýr geta borið fjölbreytt og áberandi merki og menn hafa kennitölur svo eitthvað sé nefnt. Þá hafa peningar verið merktir til að fylgjast með flæði þeirra um hagkerfi. Allt gegnir þetta sama hlutverki, að fylgjast með einingum af einhverju tagi til að geta dregið ályktanir um hvernig söfn eininganna haga sér. Hvað fuglamerkingar varðar þá nýtast upplýsingar um merkta fugla meðal annars til að fylgjast með breytingum á lífslíkum, reikna út stofnstærðir, skoða hvernig tímasetningar í ársferlinum (t.d. fartími og varptími) tengjast loftslagsbreytingum og margt fleira.

4. mynd. Litmerkt sanderla í sunnlenskri fjöru. Sanderla er svokallaður umferðarfugl en þær fara um Ísland vor og haust á leið sinni til og frá hánorrænum varpstöðvum.

Hvað á að gera við upplýsingar um merkta fugla? 

Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Suðurlandi heldur úti litmerkingaverkefnum fyrir fjórar tegundir vaðfugla; jaðrakana, tjalda, spóa og sandlóur og við viljum endilega frétta af álestrum sem fyrst. Allar upplýsingar um merkta fugla, hvort sem þeir eru merktir með málmmerki eða litmerkjum skal senda til Náttúrufræðistofnunar Íslands (fuglamerki@ni.is) sem kemur upplýsingum svo áfram til merkjanda. Nánari upplýsingar má finna hér.

5. mynd. Litmerkt sandlóa í vorhreti í Bolungarvík (mynd: Böðvar Þórisson).