Viðhorf bænda til náttúruverndar

Safamýri

1. mynd. Safamýri í Rangárvallasýslu.

Náttúruvernd snýst um að vernda líf og land. Þau kerfi sem halda mönnum og öðrum kvikindum á lífi eru samtvinnuð. Ferlar sem verka í lofti, jarðvegi, vatni og lífverum spila saman á órjúfanlegan hátt og mynda þá sinfóníu sem náttúran er. Náttúruvernd í verki felst einkum í því að fara vel með auðlindir: land, vatn og loft. Árangur getur t.d. endurspeglast í góðri ræktunarmold sem ekki er gengið á, hreinu vatni og líflegu dýralífi. Miðað við mikilvægi náttúruverndar ætti að vera sjálfgefið að allir tækju þátt í henni af fúsum og frjálsum vilja. Svo er þó ekki. Hagsmunir af notkun á landi eru fjölbreyttir, oft nærtækari en óræð vernd, og afleiðingar landnotkunar koma oftast fram seinna og á öðrum mælikvörðum heldur en drifkraftar breytinga. Þannig geta smávægilegar breytingar á landnotkun sem þjóna staðbundnum hagsmunum (raunverulegum eða ímynduðum) haft lítil áhrif en uppsöfnuð áhrif margra slíkra breytinga geta haft veruleg neikvæð áhrif. Þannig koma raunar áhrif flestra breytinga á landi fram, sem uppsöfnuð áhrif á löngum tíma.

Náttúruvernd á landi á Íslandi hvílir mikið á herðum bænda af þeirri einföldu ástæðu að þeir eiga stóran hluta landsins og hafa atvinnu af nýtingu þess. Þá er lagaumhverfi náttúruverndar á Íslandi veikt, eignarréttur sterkur og því hafa landeigendur mikið vald til að gera bæði gagn og ógagn með notkun sinni á landi. Þessi blanda af eignarhaldi, hagsmunum og haldlitlum lögum er efniviður í harmleik ef illa tekst til. Í þessu samhengi má nefna að hraði landbreytinga er meiri á Íslandi en víðast hvar í Evrópu. Auk almennra hnattrænna markmiða í náttúruvernd eru góðar ástæður fyrir því að taka tillit til náttúrufars við landbúnað og aðra landnotkun. Góð umgengni við land styður gott orðspor landbúnaðar og getur verið hluti af gæðastýringu. Einnig hjálpar góð meðferð á landi við að ná markmiðum alþjóðlegra samninga á sviði náttúruverndar sem Ísland á aðild að. Þá getur náttúruvernd stutt við ferðaþjónustu sem gegnir orðið mikilvægu hlutverki í flestum sveitum.

Rannsóknir benda til að náttúruvernd nái frekar markmiðum sínum ef hagsmunaaðilar eru með í ráðum frá fyrstu stund. Því liggur beint við að kanna hug íslenskra bænda til náttúruverndar. Hvort þeir hafa áhuga á náttúrunni, hvernig þeir nýta hana og hvernig þeir upplifa ábyrgð sína.

lilja_mynd

Lilja Jóhannesdóttir

Lilja Jóhannesdóttir doktorsnemi við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Suðurlandi heimsótti bændur víða um land og ræddi við þá um náttúruvernd og landnotkun. Hún spurði sérstaklega um mófugla en þeir eru áberandi hópur lífvera, nátengdir frjósemi lands og landnotkun (3. mynd) og órjúfanlegur hluti af andrúmslofti sveitanna. Heimsóttir voru 24 bæir á Suðurlandi, 16 á Vesturlandi og 22 á Norðurlandi. Bæirnir voru af ýmsum stærðum, með fjölbreytt búfjárhald og bændur á ýmsum aldri og af báðum kynjum. Rannsakendum var alls staðar tekið vel og þetta ferðalag um landið fól í sér mikið kaffiþamb og lærdóm. Spurt var ýmissa spurninga og möguleikar á svörum voru yfirleitt fimm frá mjög líklegu yfir í mjög ólíklegt. Niðurstöður rannsóknanna birtust í tímaritinu Ecology and Society fyrir nokkrum dögum og greinina má finna hér.

nfr-vistkerfi

3. mynd. Einfalt líkan af landviskerfi Íslands sem sýnir dæmi um tengsl eðlisþátta, lifandi náttúru og landnotkunar (úr Náttúrfræðingnum 79: 2010).

Fyrst voru bændur spurðir hvort þeir hyggðust auka flatarmál ræktaðs lands á næstu 5 árum (spurt 2013-2014). Yfir helmingur (63%) sögðust vera líklegir eða mjög líklegir til að auka við ræktað land. Nokkrir voru hlutlausir en af þeim 20% sem sögðust ólíklegir eða mjög ólíklegir til að auka ræktun kváðust 8% ekki hafa meira land til ræktunar. Miðað við þessi svör má telja mjög líklegt að flatarmál ræktaðs lands aukist verulega á næstu árum.

Næst var spurt um viðhorf til fuglaverndar. Nær allir bændur (97%) sögðu að það væri mikilvægt eða mjög mikilvægt að hafa ríkulegt fuglalíf á jörðum sínum. Eldri bændur reyndust ívið jákvæðari fyrir fuglavernd en þeir yngri. Þegar spurt var hvort bændur tækju tillit til fugla við landnotkun sögðust aðeins um 30% þegar gera það. Þegar spurt var um hvaða aðgerðir það væru sem bændur gripu til fyrir fugla voru algengustu svörin að þeir reyndu að hlífa fuglum í slætti og tjörnum við raski.

Þá voru bændur spurðir hver afstaða þeirra væri til nokkurra þátta er varða landnotkun og eru þekktir að því að hafa mikil áhrif á fugla. Fyrst var spurt hvort þeir væru líklegir til að stýra beit þannig að hún gæti hentað fuglum (mófuglar þrífast best við hóflega beit). Yfir helmingur bænda taldi að þeir myndu gjarnan stýra beit fyrir fugla ef upplýsingar um slíkt lægju fyrir. Þá var spurt hvort bændur væru líklegir til að hlífa tjörnum og pollum við framræslu. Yfir 90% sögðust þegar gera það eða vera líklegir til að hlífa þessum mikilvægu búsvæðum. Um 60% bænda sögðust vera líklegir til að stýra almennri landnotkun á jörðum sínum til hagsbóta fyrir fugla ef fyrir lægju upplýsingar um hvaða hlutar jarðarinnar væru mikilvægastir. Að síðustu var spurt hvort að mögulegt væri að seinka slætti ef það gæti hjálpað fuglum. Það töldu flestir ómögulegt vegna norðlægrar stöðu landsins. Spurt var hvort að greiðslur gætu breytt afstöðu til ofangreindra þátta en fæstir töldu að það skipti máli.

IMG_18092015_101536

Samantekt

Náttúruvernd á Íslandi veltur mikið á að bændur hafi áhuga á henni. Náttúruvernd er af ýmsum toga en þessi rannsókn snerist um að kanna viðhorf bænda til verndar mófugla. Íslenskir bændur virðast langflestir hafa áhuga á að viðhalda ríkulegu fuglalífi á jörðum sínum og vera reiðubúnir að leggja nokkuð á sig til að viðhalda þessari sérstöðu íslensku sveitanna. Þessar upplýsingar hafa ekki legið fyrir áður en niðurstöðurnar eru bæði gleðilegar og vekja bjartsýni.

Víða í nágrannalöndum okkar eru kerfi til staðar sem umbuna bændum fyrir að að taka tillit til náttúrufars umfram það sem lagaákvæði kveða á um. Innan sameiginlegu landbúnaðarstefnu Evrópu (CAP) eru til dæmis slík kerfi (e. Agri-environmental schemes). Í þeirri samvinnu felst viðurkenning á mikilvægi þess fyrir samfélagið, að samræma matvælaframleiðslu og náttúruvernd. Engin slík kerfi eru til staðar á Íslandi umfram það sem tilgreint er í haldlitlum lögum um náttúruvernd. Af þessum sökum var spurt hvort að það væri líklegt til að hafa áhrif á þátttöku bænda í náttúruvernd ef greiðslur væru í boði. Á þessu stigi töldu bændur það ekki líklegt til að breyta miklu en vera má að það sé vegna þess að slíkt hefur ekki verið rætt mikið á Íslandi. Eins má nefna að greiðslur til annarra þátta eru þegar til staðar og talsvert nýttar, t.d. vegna landbúnaðarframleiðslu og skógræktar. Því er ekki ólíklegt að bændur myndu líka nýta sér möguleika á að stunda náttúruvernd gegn greiðslu ef slíkt væri í boði. Það hefur einnig verið reyndin í öðrum löndum. Náttúruvernd getur aldrei verið á herðum bænda og landeigenda einna, stjórnvöld og almenningur verða að styðja þá í að fara vel með landið. Náttúruvernd verður að byggja á samfélagsátt sem felur í sér gangkvæma ábyrgð og skilning. Sterkari aðkoma stjórnvalda að náttúruvernd í samstarfi við bændur er eina leiðin til að vernda náttúruauðlindir á Íslandi. Almenningur verður einnig að vera meðvitaður og styðja þá bændur sem standa sig vel. Í slíku samspili felast mörg tækifæri.

Við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Suðurlandi stendur fyrir dyrum vinna sem miðar að því að taka saman vísindalegar upplýsingar um tengsl landnotkunar og fuglalífs á Íslandi. Stefnt er að því að miðla þeirri þekkingu á aðgengilegan hátt til sem flestra sem hún kæmi að gagni.

 

Heimildir

Jóhannesdóttir, L., Alves, J.A., Gill, J.A. & Gunnarsson, T.G. 2017. Reconciling biodiversity conservation and agricultural expansion in the sub-arctic environment of Iceland. Ecology and Society. https://doi.org/10.5751/ES-08956-220116

Europe, C. o. 2002. Convention on Conservation of European Wildlife and Natural Habitats – Standing Committee. Recommendation No. 96 on conservation of natural habitats and wildlife, specially birds, in afforestation of lowland in Iceland, adopted by the Standing Committee on 5 December 2002. 

Hodge, I., J. Hauck, and A. Bonn. 2015. The alignment of agricultural and nature conservation policies in the European Union. Conservation Biology 29:996-1005.

Steve M. Redpath,  Juliette Young, Anna Evely, William M. Adams, William J. Sutherland, Andrew Whitehouse, Arjun Amar, Robert A. Lambert, John D.C. Linnell, Allan Watt & R.J. Gutiérrez 2013. Understanding and managing conservation conflicts. Trends in Ecology & Evolution 28: 100-109.

Elke Wald 2012. Land-use Development in South Iceland 1900-2010. Meistaritgerð við Háskóla Íslands. Slóð: http://hdl.handle.net/1946/10804

landeyjar