Áhrif eldgosa á varpárangur jaðrakans

fridl

Eldvirkni mótar náttúru Íslands á sýnilegri hátt en á við um flest önnur lönd. Hér eru ferlar landmótunar mjög virkir og eldgos verða að jafnaði á fárra ára fresti. Fram undir þetta hafa tengsl eldosa við hina lifandi náttúru þó verið lítið könnuð. Ástæðan er helst sú að erfitt að skipuleggja rannsóknir svo að þær nemi áhrif jafn óreglulegra atburða og eldgos eru. Helst er það ef eldgos verða þar sem langtímavöktun á umhverfisþáttum hefur verið stunduð að draga má ályktanir um áhrif eldgosa. Ein mikilvægasta ástæðan fyrir gagnsemi langtímarannsókna er einmitt að þær nema áhrif sjaldgæfra atburða.

Nýlega hafa  safnast upp vísbendingar um tengsl eldvirkni við fuglalíf. Þegar horft er til langs tíma virðast áhrif eldvirkni vera jákvæð því þéttleiki mófugla er að jafnaði hærri í þeim landshlutum þar sem áfok gosefna er hvað mest. Líklega hefur áfokið áhrif  á sýrustig og næringarefnabúskap sem verkar upp í gegnum fæðukeðjur og birtist í mismiklum þéttleika fugla. Skammtímaáhrif öskufalls í tengslum við eldgos virðist þó hafa neikvæð áhrif á mófugla. Nýlegar rannsóknir á spóa í Rangárvallasýslu í tengslum við gosin í Eyjafjallajökli 2010 og Grímsvötnum 2011 sýndu að varpárangur var verri þar sem öskufall var meira. Nú nýlega birtust niðurstöður hliðstæðra rannsókna á jaðrakan í Rangárvallasýslu sem sýna sama mynstur.

Varpárangur jaðrakana hefur verið vaktaður í lok júní síðan 2011. Vöktunaraðferðin er einföld. Ekið er eftir sömu vegum og slóðum á hverju ári í síðustu viku júní. Heildarlengd sniðsins er 198 km. Ekið er á hámarkshraða 40 km á klst (eðlilegur ferðahraði fuglafræðinga) með glugga opna í þurru og fremur lygnu veðri. Jaðrakanar með unga eru sýnilegir og láta heyra vel í sér og eldri rannsóknir sýna að jaðrakanar sem láta þannig eru nær undantekningalaust með unga þó felugjarnir ungarnir sjáist ekki nema með talsverðri fyrirhöfn. Þegar vart verður við reiða jaðrakanaforeldra er bíllinn stoppaður (oftast fyrirvaralaust, túristar hvað) og hornrétt fjarlægð foreldranna (eða unganna ef þeir sjást) frá vegi mæld til að staðla breidd sniðsins. Mælieining á varpárangur er fjöldi ungahópa/para með unga á sniðinu öllu en of tímafrekt er að telja ungana sjálfa. Með þessum einfalda hætti má fá ódýra vísitölu á varpárangur á stórum svæðum.

Árferði hefur mikil áhrif á varpárangur vaðfugla og í þessari rannsókn komu fram sterk tengsl milli varpárangurs og vorhita (1. mynd). En eina árið (2011) þar sem áhrifa eldgosa gætti að marki féll varpárangur niður í næstum ekki neitt þrátt fyrir milt vor. Talsvert var um ösku á athugunarsvæðinu. Smádýragildrur sem notaðar voru til að meta fæðuframboð fylltust af ösku og rannsóknarmenn notuðu andlitsgrímur verstu dagana. Líklega á það sama við hér og í rannsókninni á spóa sem nefnd var að ofan að aska í miklum mæli hefur neikvæð áhrif á fæðuframboð en ýmis smádýr sem eru helsta fæða vaðfugla virðast þola öskufall illa. Bætt var við mælingum á fleiri tegundum sem þessi vöktunaraðferð hentar fyrir árið 2012 og þær hjálpa okkur vonandi líka að skilja betur hvaða þættir stjórna stofnum íslenskra mófugla þegar árin líða.

Jaðrakan ungahópar

Tengls milli vorhita og varpárangurs jaðrakans í Rangárvallasýslu. Að jafnaði eru fleiri pör með unga í lok júní í árum þegar hiti í maí er hærri. Árið 2011 þegar áhrifa ösku gætti víða á athugunarsvæðinu skar sig úr (opinn hringur) og varpárangur var nær enginn.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Heimildir

Katrinardottir, B., Alves, J.A., Sigurjonsdottir, H., Hersteinsson, P. & Gunnarsson, T.G. 2015. The effects of habitat type and volcanic eruptions on the breeding demography of Icelandic Whimbrels Numenius phaeopus. PLOS One. DOI: 10.1371/journal.pone.0131395

Gunnarsson, T.G., Jóhannesdóttir, L., Alves, J.A. & Gill, J.A. 2017. Effects of spring temperature and volcanic eruptions on wader productivity. Ibis, doi: 10.1111/ibi.12449

Gunnarsson, T.G., Arnalds, O., Appleton, G., Mendés, V. & Gill, J.A. 2015. Ecosystem recharge by volcanic dust drives broad-scale variation in bird abundance. Ecology and Evolution. DOI: 10.1002/ece3.1523