Dýralíf og uppgræðsla

l17a4518

Heiðlóa og lúpina

Stórir hlutar Íslands eru lítt grónir og ýmsar aðferðir hafa verið notaðar til að græða upp land í gengum tíðina. Að jafnaði þarf ekki að fjölyrða um ágæti uppgræðslu en hún hefur fjölbreytt jákvæð áhrif á jarðveg, loft, vatn og lífríki. Þó getur verið æskilegt að viðhalda sýnishornum af ógrónu landi þar sem það á við. Að einhverju leyti sér landið sjálft um að viðhalda lítt grónum svæðum þar sem ágangur náttúruafla er mestur en slík svæði eru hluti af sérstöðu Íslands og hafa fjölbreytt gildi fyrir sérhæfðar lífverur og fólk. Þegar græða á upp land er hægt að beita ýmsum aðferðum. Þær aðferðir sem hafa mest verið notaðar á Íslandi eru: A) Beitarfriðun og áburðargjöf.  B) Beitarfriðun, sáning á grasfræi, einkum túnvingli, ásamt áburðargjöf. (C) Sáning á lúpínu. Fyrri aðferðirnar framkalla snögglendi á fyrri framvindustigum, vaxið frumherjum eins og krækilyngi og mosa ásamt grasi. Þetta land mætti kalla mólendi en það fer þó eftir undirlagi, landnotkun, loftslagi og fleiri þáttum hver framvindan verður. Erfitt er að gefa búsvæðum, sem eru í eðli sínu fjölbreytt, einföld nöfn þó auðvelt geti verið að lýsa mun á búsvæðum með mælingum. En á fyrri framvindustigum (fáir áratugir) er mólendi ágætt vinnuheiti á þessum svæðum. Þriðja aðferðin, lúpínusáning, er afskaplega skilvirk ef markmiðið er að mynda gróðurhulu hratt. Lúpína er niturbindandi (þarf ekki áburð) og er mjög dugleg á ógrónu landi. Lúpína er orðin áberandi í öllum landshlutum. Nýlegt mat Náttúrufræðistofnunar Íslands bendir til að lúpína þeki að minnsta kosti 314 km2 en líklega er þó útbreiðslan talsvert meiri með þeim fyrirvörum sem þar eru gefnir. Lúpína getur myndað þéttar breiður á fáum árum. Misjafnt virðist vera hvort hún hörfar svo eða ekki en það virðist fara eftir loftslagi og landnotkun. Það gefur auga leið að uppgræðsluaðferðir sem mynda svo ólík búsvæði og mólendi og lúpínubreiður eru líklegar til að hafa ólík áhrif á dýralíf en einn mælikvarði á árangur uppgræðsluaðferða getur verið hvernig þær styðja við mismunandi þætti líffræðilegrar fjölbreytni.

Sumarið 2011 vann Brynja Davíðsdóttir að meistaraverkefni sínu við Landbúnaðarháskóla Íslands í samstarfi við Landgræðslu ríkisins og Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Suðurlandi. Verkefni hennar fólst í að bera fugla- og smádýralíf saman milli þeirra tveggja uppgræðsluaðferða sem nefndar eru að ofan og ógróið land var einnig í samanburðinum. Niðurstöður rannsóknanna komu nýlega út í tímaritsgrein sem finna má HÉR og þar má jafnframt finna heimildir fyrir því sem ritað er hér að ofan. Hér að neðan eru niðurstöður samandregnar.

fridl

Jaðrakan

Áhrif uppgræðslu á fuglalíf

Fuglalíf jókst mikið með báðum uppgræðsluaðferðunum. Að jafnaði var 31 fugl/km2 á ógrónu landi, 337 fuglar/km2 í mólendi og 627 fuglar/km2 í lúpínu. Þannig má sjá að uppgræðsla eykur fjölda fugla um stærðargráðu og tvöfalt fleiri einstaklingar fugla eru í lúpínubreiðum en í mólendi. Í mólendi eru ívið fleiri tegundir algengar og þar finnast fyrst og fremst algengar tegundir mófugla eins og heiðlóa, lóuþræll, spói og þúfutittlingur. Í lúpínu er þúfutittlingur í ofurþéttleika en annar hver fugl í lúpínu er þúfutittlingur. Í lúpínu finnast einnig í talsverðum mæli fuglar sem fela hreiður sín eins og hrossagaukur og stelkur. Þannig má segja að uppgræðsla sem framkallar mólendi styður við fuglasamfélög sem byggjast upp af tegundum sem þurfa opið land og útsýni en lúpína styður við felugjarnari tegundir sem þrífast í hærri gróðri, sumar þeirra eru tegundir sem dafna vel í kjarrlendi eða gisnum skógi eins og þúfutittlingur og hrossagaukur.

Áhrif gróðurframvindu

Samanburður á þéttleika milli allra mólendis- og lúpínubletta sem skoðaðir voru segir ekki alla söguna því framvindustig beggja vistkerfa hefur mikil áhrif á hvernig þau henta fyrir mismunandi tegundir. Talsverður munur var á framvindustigi mólendisbletta sem voru skoðaðir allt frá því að vera á fyrstu stigum framvindu frá ógrónu landi upp í að vera vel grónir með fjölbreyttum gróðri. Sama mátti segja um lúpínuna. Sumar breiður voru gisnar, aðrar þéttar og á enn öðrum stöðum var lúpína farin að hörfa fyrir öðrum gróðri. Blettum var skipt upp eftir framvindustigi og áhrif framvindu á þéttleika fugla könnuð til að reyna að skilja betur ferlið sem mótar tengsl fuglaþéttleika og þessara búsvæða. Spóinn er áhugavert dæmi. Þegar allir blettir voru bornir saman var þéttleiki spóa í mólendi og lúpínu hliðstæður. Ef þéttleika spóa var skipt upp eftir framvindustigi má sjá að þéttleiki jókst með framvindu í mólendi en í lúpínu fannst spói bara í gisinni eða hörfandi lúpínu en ekki í þéttri. Kjörlendi spóa eru hálfgrónar áreyrar þar sem skiptast á ógrónir blettir og toppar af hrossanál og víðirunnum. Hugsanlega hefur gisin lúpína hliðstæð áhrif en einnig er mögulegt að lúpína hafi verið að fara yfir hentug spóasvæði og að þeir hafi látið sig hafa gisnu framvindustigin en ekki það þétta. Um þetta verður ekki fullyrt án frekari rannsókna. Sama má segja um stelk að hann kom ekki fram í þéttri lúpínu í þessari rannsókn. Einkennistegundir lúpínu, þúfutittlingur og hrossagaukur voru hins vegar í mestum þéttleika í þéttri lúpínu (þúfutittlingur líka í hörfandi). Því má sjá að það eru ekki bara þær uppgræðsluaðferðir sem notaðar eru sem stýra hvernig fuglasamfélög mótast heldur ræður framvinda gróðurs miklu um hvaða fuglategundir dafna og hverjar hörfa.

Þá er vert að nefna  að flestir fuglar þurfa fjölbreytt skilyrði til að uppfylla þarfir sínar, t.d. fyrir hreiðurgerð og fæðunám fyrir fullorðna og unga. Þessu má líkja við fólk sem hefur gjarnan eldhús, stofu og salerni í hýbílum sínum. Tæknilega séð kæmist fólk af með að búa bara á klósettinu en það yrði þó leiðigjarnt til lengdar. Að sama skapi nota fuglar oft ýmsar búsvæðagerðir samhliða og fjölbreytni í búsvæðum hefur mikil áhrif á fjölbreytni fuglalífs.  Af þessum sökum skiptir miklu máli hvaða búsvæðagerðir eru nálægt þeim sem verið er að telja fugla í. Þetta var ekki kannað kerfisbundið í þessu verkefni en búast má við að talsvert af breytileika í tölunum skýrist af því hvaða búsvæði voru nálægt talningasvæðunum. Jaðaráhrif eru almennt vandamál í rannsóknum við óstaðlaðar aðstæður í blettóttu umhverfi og ekki sérstök ástæða til að hafa áhyggjur af þeim hér.

l17a5324-2000x1334

Hunangsfluga á víði

Áhrif uppgræðslu á smádýralíf

Smádýralíf var kannað með því að háfa á staðlaðan hátt af gróðri á sömu stöðum og þar sem fuglar voru taldir. Ekki kom á óvart að fleiri smádýr fundust þar sem gróður var meiri en smádýr voru flest í lúpínu og fæst á ógrónu landi. Þúfutittlingur var eini algengi fuglinn sem getur nýtt sér að marki skordýr á hávaxnari gróðri eins og lúpínu því hann getur tekið fæðuna á flugi ólíkt jarðbundnari tegundum sem taka mest smádýr á yfirborði. Lúpínan hentar honum því afar vel, þar er auðvelt að fela hreiður og þar er gnótt fæðu sem lítil samkeppni er um eins og t.d. mófeta sem er algengt fiðrildi í lúpínu. Án tillits til búsvæðagerðar voru jákvæð tengsl milli fjölda smádýra og fjölda fugla ef allir talningastaðir voru hafðir til hliðsjónar. Þar sem meira var af smádýrum var líka meira af fuglum. Þá var gerður samanburður á því hversu mörg smádýr veiddust í háf og í fallgildrur (sem veiða smádýr á yfirborði) á völdum svæðum á Suðurlandi. Almennt var nokkuð góð fylgni þar á milli, þar sem fleiri dýr veiddust í háf veiddust fleiri í fallgildrur. Veiði smádýra með annarri aðferðinni gefur því vísbendingar um hversu mörg dýr eru af hópum sem veiðast bara með hinni. Í þeim búsvæðum sem hér voru til skoðunar má því sjá að fuglalíf, smádýr á yfirborði og smádýr á gróðri helst allt í hendur sem hefur hagnýtt gildi þegar afla þarf harðsoðinna vísbendinga um líffræðilega fjölbreytni.

Niðurlag

Það þarf fjölbreyttar upplýsingar til að bera saman ágæti mismunandi uppgræðsluaðferða. Praktískir hlutir eins og kostnaður og hversu brátt vandamálið er skipta máli en einnig vistfræðilegir þættir eins og eðli þeirra samfélaga sem mótast við uppgræðslu og hversu sértækar aðgerðirnar eru í rúmi. Vægi mismunandi þátta getur verið misjafnt eftir stöðum. Þessir mælikvarðar þurfa að vera þekktir og það þarf að horfa á þá í samhengi til að geta tekið upplýsta afstöðu.

Fuglalíf er einn af þeim mælikvörðum sem nota má til að bera saman landbreytingar eins og uppgræðslu. Ef markmiðið er að styðja við sem flesta fugla þá er rétt að sá lúpínu. Þar er þéttleiki hæstur og munar mest um þúfutittling. Ef markmiðið er að styðja við tegundir sem standa illa á heimsvísu en hafa stóran hluta heimsstofns hér (svokallaðar ábyrgðartegundir) er vænlegra að endurheimta mólendi. En þá þarf einnig að halda mólendinu á hentugu framvindustigi fyrir þessar tegundir því annars hverfa þær er gróður hækkar. Þetta mynstur getur hentað vel fyrir bændur sem láta land sitt tímabundið undir uppgræðslu en vilja nýta aftur þegar landið þolir beit. Endurheimt mólendis er líklegri til að styðja við skuldbindingar Íslendinga á sviði náttúruverndar en illa hefur gengið að aðlaga landnotkun hér að alþjóðlegum samningum sem við höfum undirgengist.

Ekki þarf að fjölyrða um að lúpína er umdeild planta á Íslandi. Hún á fjölda aðdáenda enda er hún bæði falleg og dugleg landgræðslujurt. Á móti kemur að hún gengur á land sem öðrum er kært og ógnar sjaldgæfum búsvæðum. Umræða um ágæti lúpínu hefur verið einstrengingsleg og ólíkleg til að styðja nokkuð við farsæla stefnumótun. Með aukinni þekkingu og bættri umræðu má vonast til að fólk geti komið sér saman um hvar lúpína á heima og hvar ekki. Mikil þörf er á slíkri sátt því lúpínan er komin til að vera.