Bogga og spóinn

Sumurin 2009-2011 vann Borgný Katrínardóttir að meistaraverkefni sínu við Háskóla Íslands, en verkefnið fjallaði um vistfræði spóa á Suðurlandi. Ég ætlaði að vera búinn að skrifa pistil um þetta merkilega verkefni fyrir löngu en það tafðist og það urðu aðrir á undan sem var bara gott. Fjallað var um verkefnið á heimasíðu breska Fuglafræðifélagsins (http://www.bou.org.uk/icelandic-wimbrel/) í haust og nýlega í morgunblaðinu (http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/10/22/eldgosin_trufludu_varp_spoans/). En það er rétt að gera þessu aðeins skil.

IMG_18092015_101536

Mælingar sem gerðar voru fyrir meira en áratug staðfestu að spóar sækja víða í hálfgróin búsvæði. Þessir staðir eru oft meðfram ám, þar sem flóð hafa raskað gróðurframvindu og skiptast á sandur, pollar og gróðurflesjur, gjarnan með hrossanál og víðirunnum á stangli. Spóar verpa mun þéttar á slíkum stöðum heldur en á ýmsum öðrum þar sem spóar verpa líka í talsverðum mæli, t.d. í mólendi og graslendi. Sem dæmi um staði sem uppfylla þessi skilyrði má t.d. nefna Markarfljótsaura, ræmur meðfram Þjórsá og Hvítá á Suðurlandi, Úthérað og sanda við Öxarfjörð. Þessir staðir og fleiri hliðstæðir á Íslandi eru konungsríki spóans og þeir verpa hvergi þéttar í heiminum. Markmið með verkefni Borgnýjar var að skýra af hverju spóar sækja svona mikið í þessi svæði. Líklegt þótti að munur á fæðuframboði og varpárangri myndi skýra mun á þéttleika spóa milli hálfgróinna áreyra og annarra svæði en fæðuframboð hefur áhrif á afkomu og ungir vaðfuglar snúa gjarnan aftur sem varpfuglar á æskustöðvar sínar.  Þannig ættu spóar að verpa í hærri þéttleika þar sem fleiri ungar komast upp að jafnaði. Verkefnið var því sett upp til að bera saman fæðuframboð og varpárangur milli þessara kjörsvæða spóa og annarra og átti að ganga snurðulaust fyrir sig. En eins og John Lennon sagði „life is what happens to you when you are busy making other plans“…

IMG_08092015_100432

Eldgos trufla mælingar. Verkefnið fór fram á Suðurlandi á nokkrum svæðum frá Fljótshlíð vestur í Ölfus. Allt gekk vel fyrir sig sumarið 2009 og Borgný vann af kappi við gagnaöflun. En svo gaus Eyjafjallajökull vorið 2010. Og Grímsvötn 2011. Þetta truflaði mælingar á fæðuframboði verulega. Spóinn étur ýmsar pöddur sem eru á ferðinni á og við yfirborð. Til að meta hvað er mikið af þeim og bera saman milli svæða eru notaðar svokallaðar fallgildrur. Fallgildrur eru í raun skyrdollur sem eru grafnar niður þannig að efri brúnin ber við yfirborð jarðar. Smádýrin hrapa svo niður í þær og lenda í þunnu lagi af frostlegi sem er notaður til að varðveita dýrin fram að tæmingu. Í stuttu máli má segja að gildrurnar fylltust meira og minna af ösku en það sem kom í þær af smádýrum var afskaplega lítið. Lítill munur fannst á fæðuframboði milli búsvæða en talsverður munur var á árum  og seinna eldgosaárið (2011) var verst. Ekki virtust spóapör á hálfgrónum áreyrum heldur líklegri til að koma upp ungum heldur en pör á öðrum svæðum (sem einkum voru mólendissvæði). En þessi rannsókn staðfesti hins vegar fyrri mælingar á varpþéttleika, þéttleiki var mun hærri á hálfgrónum áreyrum heldur en á öðrum svæðum. Þetta þýddi að þó að varpárangur væri svipaður (líkur á að par komi upp ungum) var mun meira af fuglum með unga á áreyrasvæðunum heldur en á öðrum svæðum. Þ.e. ungaframleiðsla á flatareiningu (en ekki á par) var mun meiri á áreyrasvæðum en í mólendi.

En spurningin sem lagt var upp með stendur ennþá: af hverju verpa spóar í hærri þéttleika á hálfgrónum áreyrum heldur en á öðrum varpbúsvæðum? Sækni fuglategunda í ákveðin búsvæði mótast af náttúrlegu vali eins og aðrir andlegir og líkamlegir eiginleikar. Það þýðir (yfirleitt) að þeir fuglar sem sækja í þau svæði þar sem afkoma (lífslíkur og/eða framleiðsla) er best komast helst af og þeir eiginleikar að sækja í tiltekið búsvæði erfast því til fleiri afkomenda og verða algengari í stofninum. Þetta hlýtur að eiga við um spóann og hálfgrónu áreyrarnar líka þó að ekki hafi tekist að mæla það með óyggjandi hætti í þessari atrennu. Undirritaður duflaði líka við spóann á ofanverðri síðustu öld og þær athuganir leystu heldur ekki málið. Líklegasta skýringin á þessu greinilega búsvæðavali spóans er að það sé í raun munur á afkomu spóa milli þessara búsvæða, það þurfi bara meira átak til að mæla muninn. Spóinn er langlífur fugl sem getur orpið í mörg ár. Það þarf líklega bara smá mun  á varpárangri milli búsvæða yfir margra ára tímabil til að spóar fari að þróa með sér skoðanir á hvaða búsvæði eru kjörlendi og hver síður. Ef munurinn er lítill þá þarf margra ára rannsóknir til að mæla hann sem eru langt utan við ramma einstakra námsverkefna. Þetta er gömul saga og ný, það er oftast mun erfiðara að svara spurningum um náttúruna heldur en að spyrja þeirra. Það er erfitt að stunda tilraunavísindi (sem gagnast best til að aðgreina áhrifaþætti) á vistfræðilegum kerfum á stórum svæðum og því sitjum við uppi með að afla grófra upplýsinga um tengsl þátta og reyna að túlka þær af varfærni.

cropped-spc3b3.jpg

Eldgos veittu tækifæri. Ísland er eitt eldvirkasta svæði í heimi og  tengsl líffræði og jarðfræði eru óvíða skýrari en hér. Þrátt fyrir það er lítið vitað um bein áhrif eldvirkni á dýralíf enda er erfitt að skipuleggja rannsóknir til að fást við óregluleg fyrirbæri eins og eldgos. En rannsóknin hennar Borgnýjar hitti vel á. Hún byrjaði ári fyrir Eyjafjallajökulsgosið og hún tók til svæða sem voru víða um Suðurland, mislangt frá upptökum gossins. Mikill munur var á varpárangri spóa eftir því hversu langt frá Eyjafjallajökli rannsóknasvæðin voru. Næst upptökunum (á Markarfljótsaurum) var varpárangur verstur en batnaði eftir því sem fjær dró. Þessi munur var enn skýrari sumarið 2011 þegar aska frá Grímsvötnum bættist við öskuna frá Eyjafjallajökli heldur en 2010. Eldgosið hafði því talsverð neikvæð skammtímaáhrif á spóavarp, og meiri áhrif þar sem var meiri aska. Líkleg meginskýring er að askan hafi neikvæð áhrif á fæðuframboð en þekkt er úr rannsóknum erlendis að aska stráfellir skordýr með því að stífla á þeim loftgötin og þurrka þau upp. Smádýrastofnar jafna sig þó líklega fljótlega. Væntanlega fara þessi skammtímaáhrif mest eftir stærð öskugosa og dreifingu og magni ösku.

En nýlega hefur komið í ljós að áhrif eldvirkninnar eru líka jákvæð fyrir mófugla. Dreifing og magn ryks (oft kallað moldrok í daglegu tali) í loftinu er nátengt gosbeltunum. Uppblásturinn er mestur á eldvirku svæðunum, af illa förnum afréttum, við hopandi jökla og í tengslum við eldgos. Þar sem meira ryk fellur á gróið land, þar eru fleiri mófuglar. Af þessum völdum er (að jafnaði) meira af mófuglum á grónu landi á Suðurlandi og Norðurlandi heldur en á Austurlandi og Vesturlandi. Hér er líklega um eins konar áburðaráhrif að ræða þar sem rykið hefur áhrif á jarðvegseiginleika sem bæta fæðuframboð fyrir mófugla.

En af spóanum er það að frétta að þeir virðast hafa rétt úr kútnum á Suðurlandi síðan á gosárunum og varpið hefur gengið prýðilega síðustu ár. En það eru blikur á lofti. Rannsóknir Borgnýar staðfestu eldri mælingar og sýna að spói verpur í langhæstum þéttleika á hálfgrónum svæðum af ákveðnu tagi sem oftast (en ekki alltaf) eru meðfram ám. Þeir staðir sem uppfylla þessi skilyrði eru bara lítil frímerki og líklega verpur allt að 10% af spóum heimsins á þessum svæðum á Íslandi eða um fjórðungur íslenska stofnsins. Þau eru óðum að hverfa vegna þess að við leyfum ekki ám að flæmast á eyrum og lúpína lokar víða svæðum meðfram ám sem eru lítt gróin frá náttúrunnar hendi. Einnig hefur beitarmynstur breyst en beit virðist víða viðhalda hentugum mófuglasvæðum sem annars hverfa í gróður. Spói verpur þó víða utan þessara svæða og vonandi fáum við að njóta hans lengi enn þó bestu svæðin spillist nú hratt.

Að lokum er hér myndband úr þáttunum Fjársjóður framtíðar sem fjalla um rannsóknir við Háskóla Íslands og sýnir Boggu og spóann í sumarlandinu.

 

Heimildir

Katrinardottir, B., Alves, J.A., Sigurjonsdottir, H., Hersteinsson, P. & Gunnarsson, T.G. 2015. The effects of habitat type and volcanic eruptions on the breeding demography of Icelandic Whimbrels Numenius phaeopus. PLOS One. DOI: 10.1371/journal.pone.0131395

Gunnarsson, T.G., Arnalds, O., Appleton, G., Mendés, V. & Gill, J.A. 2015. Ecosystem recharge by volcanic dust drives broad-scale variation in bird abundance. Ecology and Evolution. DOI: 10.1002/ece3.1523