Flug spóans

IMG_08092015_100414

 

Þegar spóinn vellir graut er úti vetrarþraut segir hið fornkveðna. Þessi gamli sannleikur endurspeglar raunveruleikann því spóinn kemur með síðustu fuglum til landsins, flestir í byrjun maí, þegar líkur á vorhretum eru orðnar litlar. Hefðbundnar merkingar með númeruðum stálhringjum sýndu á síðustu öld að spóinn fer til V-Afríku á veturna. Nýleg samantekt á öllum endurheimtum merktra spóa sem merktir hafa verið hérlendis á vegum Náttúrufræðistofnunar Íslands, sýnir að endurheimtur að vetri eru flestar í V-Afríku frá Máritaníu til Benín og Togo en endurheimtur að vori eru flestar á Bretlandseyjum. Sárafáar endurheimtur eru af íslenskum spóum í Evrópu að haustinu (sjá kort að neðan). Þetta mynstur gaf snemma vísbendingar um að íslenskir spóar flygju mögulega beint frá Íslandi til V-Afríku á haustin, allt að 6000 km í einum rykk! Efasemdir voru lengi vel um að landfuglar sem ekki geta hvílt sig á sjónum væru færir um slíkt langflug. En með tilkomu nýrra mælitækja á síðstu árum hefur þó sést að sumir landfuglar eru færir um ótrúleg flugafrek.

spoakort

Allar endurheimtur af stálmerktum spóum frá Íslandi. Rauðir punktar = vetur (1. okt -31. mars), Grænir þríhyrningar = vor (1. apr – 30. jún), appelsínugulir þríhyrningar (1. júl –30. sept), hívtur depill = dagsetning óþekkt. Kortið er mercator vörpun. (Gunnarsson & Guðmundsson 2016. Wader Study 123(1): 44–48.

Nú höfum við komist nær því að leysa gátuna um flug spóans en starfsmenn Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Suðurlandi ásamt samstarfsfólki hafa sett svokallaða dægurrita á nokkra sunnlenska spóa á síðustu árum. Dægurritar eru lítil mælitæki á stærð við fingurnögl sem fuglar á stærð við spóa bera auðveldlega. Dægurritarnir mæla sólargang og út frá þeim upplýsingum má reikna hnattstöðu fuglanna með viðunandi skekkju þegar svo löng ferðalög eru til skoðunar. Fyrstu niðurstöður rannsóknanna birtust í Scientific Reports í dag. Fylgst var með fjórum spóum yfir heilt ár. Allir spóarnir fjórir flugu beint til V-Afríku að hausti án þess að stoppa en allir yfirgáfu ísland 3.-6. ágúst. Þeir voru 79-120 klukkutíma á flugi (um 4-5 sólarhringa) og vegalengdin sem þeir fóru var frá 3898 til 5535 km. Meðalferðahraðinn á leiðinni allri var um 50 km/klst. En sumir leggir ferðarinnar voru þó mun hraðari, allt upp í að vera 80-90 km/klst. Þetta er einhver mesti hraði sem mælst hefur hjá landfuglum á langferðum yfir sjó. Reiknað var samband milli ferðahraða spóa og vindhraða í mismunandi hæð til að meta hversu hátt spóarnir flugu. Besta sambandið var við vindhraða í 1,5 km hæð sem bendir til að þeir fljúgi nokkuð hátt.

Á vorfarinu brá svo við að tveir fuglanna höfðu viðdvöl á Bretlandseyjum en tveir þeirra flugu beint. Fuglarnir yfirgáfu Afríku 20.-29. apríl. Þeir sem flugu beint náðu til Íslands 29. apríl og 4. maí en þeir sem höfðu viðkomu á Bretlandseyjum dvöldu þar 11 og 15 daga og komu til Íslands 12. og 14. maí.

srep38154-f2

Hér má sjá flugleiðir fjögurra spóa sem merktir voru með dægurritum. Haustfarið til vinstri og vorfarið til hægri. Allir spóarnir fjórir flugu beint til Afríku að hausti en að vori höfðu tveir þeirra viðdvöl á Bretlandseyjum (Alves o.fl. 2016. Scientific Reports, doi:10.1038/srep38154).

spóFlestir fullorðnir spóar yfirgefa Ísland á stuttum tíma um mánaðamótin júlí-ágúst. Á þessum tíma má oft sjá góða hópa af spóum við suðurströndina að undirbúa sig fyrir átökin. Þeir eru búnir að fita sig um tugi prósenta þegar kemur að stóru stundinni og það er auðsjáanlegt hvað flugtakið reynist þeim erfiðara á þessum tíma. Það er hægt að skynja óróleikann í spóunum þar sem þeir bíða eftir hentugu veðri, gjarnan norðlægum áttum og björtu. Þeir virðast oft leggja af stað í uppstreyminu síðdegis. Ef heppnin er með má sjá væna spóahópa skrúfa sig upp eins og hjól þar sem þeir leita að hentugum meðvindi og réttri hæð. Þeir gefa frá sér klingjandi flaut til að halda hópnum saman. Fáeinir hætta við og bíða eftir nýjum degi. Flestir halda þó áfram. Löngu eftir að augað hættir að greina spóana má ennþá heyra angurvært flautið uppi í heiðblámanum.

Heimildir:

Gunnarsson, T.G. & G.A. Guðmundsson. 2016. Migration and non-breeding distribution of Icelandic Whimbrels Numenius phaeopus islandicus as revealed by ringing recoveries. Wader Study 123(1): 44–48.

Alves, J.A., Dias, M.P, Méndez, V., Katrínardóttir, B. & Gunnarsson, T.G. Very rapid long-distance sea crossing by a migratory bird. Scientific Reports 6:38154,  DOI: 10.1038/srep38154.